Það er óhætt að segja að það sé lítil lognmolla í kringum parið Ingibjörgu Ösp Stefánsdóttur og Magnús Geir Þórðarson. Þau kynntust þegar þau unnu saman við upphaf uppgangstíma hjá Leikfélagi Akureyrar fyrir allmörgum árum en leiðir þeirra lágu aftur saman fyrir tæpum þremur árum og ástin knúði dyra.

Fyrir um hálfu ári tók Magnús Geir við starfi útvarpsstjóra þegar hann kvaddi Borgarleikhúsið eftir mikið blómaskeið og hóf störf hjá RÚV með því að taka djarfar ákvarðanir sem voru skref í átt til nýrra tíma. Ingibjörg hefur undanfarin sjö ár stýrt Menningarfélaginu Hofi farsællega, eða frá stofnun þess. Nú er réttur tími til að takast á við ný verkefni og er fjölskyldan komin til Reykjavíkur þó að annar fóturinn verði alltaf fyrir norðan.

Frá og með áramótum mun Menningarhúsið verða sameinað Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Leikfélagi Akureyri. „Ég held þetta sé jákvætt skref, mjög mikilvægt og gott fyrir öll þessi félög og fyrir svæðið. Þessar þrjár einingar eru allar litlar og ljóst að það vantar nokkuð upp á burði þeirra til að halda uppi fullum gæðum á öllum sviði starfseminnar sem og slagkraftinn til að takast á við stærri og metnaðarfyllri verkefni, það er því ánægjulegt að þessum áfanga skuli vera náð,“ segir Ingibjörg.

Búið er að auglýsa eftir framkvæmdastjóra yfir hinu nýja sameinaða félagi og Ingibjörg segir það ekki hafa verið auðvelda ákvörðun að ákveða að sækjast ekki eftir starfinu. „Ég stíg núna til hliðar og hlakka til að fylgjast með starfsemi í nýju félagi af hliðarlínunni. Þetta er búinn að vera frábær tími í Hofi, algjört ævintýri.“

Magnús og Ingibjörg eru í ítarlegu viðtali í Eftir vinnu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .