sunnudagur, 1. maí 2016
Erlent 11. júlí 2012 09:54

OECD segir atvinnuleysi verða áfram mikið

Atvinnuleysi mælist 7,7% að meðaltali innan aðildarríkja OECD. Framkvæmdastjórinn segir að auka verði menntun ungs fólks.

Ritstjórn
Angel Gurría, framkvæmdastjóri OECD

Erfitt mun reynast að draga úr atvinnuleysi um þessar mundir og mun það verða að meðaltali 7,7% fram til loka árs 2013, samkvæmt nýrri spá Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Til samanburðar mældist það 7,9% innan aðildarríkja stofnunarinnar. Meðaltalið stóð hæst í 8,5% í október árið 2009.

Í spá OECD eru ekki taldar miklar líkur á því að draga muni úr atvinnuleysi ungs fólks með litla menntun nema gripið verði til aðgerða til að breyta því. Talsverður munur er á atvinnuleysi þessa hóps. Um helmingur ungs fólks er án atvinnu á Grikklandi og Spáni. Til samanburðar mældist hér 5,6% atvinnuleysi í maí samanborið við 7,4% í maí í fyrra. Þar af var 16% atvinnuleysi hjá fólki á aldrinum 16 til 24 ára. 

Angel Gurría, framkvæmdastjóri OECD, segir í spánni aðstæður í efnahagslífi aðildarríkjanna slæmar. Engu að síður verði ríkisstjórnir landanna að gera allt sem í valdi þeirra standi til að koma ungu fólki inn á menntaveginn hver svo sem hann verður til að auka atvinnumöguleika þess. 

Bent er á það í spá OECD, að langtímaatvinnuleysi hafi aukist mikið í fjármálakreppunni. Það stóð í 27% fyrir kreppu en er nú 35%. 

Stikkorð: OECD atvinnuleysi