*

mánudagur, 18. febrúar 2019
Innlent 13. nóvember 2017 08:28

Óheiðarlegt að útiloka Sjálfstæðisflokk

Formaður VG vill láta reyna á stjórnarmyndunarviðræður yfir miðjuna en hópur þingmanna er eindregið á móti.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Á þingflokki Vinstri grænna sem haldinn var fram á nótt í gærkvöldi náðist ekki niðurstaða um hvort óformlegar þreifingar milli flokksins, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins ættu að þróast yfir í formlegar stjórnarmyndunarviðræður.

Þingflokkurinn mun hittast aftur klukkan 13:00 í dag, en fundurinn í gær stóð yfir í fimm tíma, og ríkir mikil óeining innan flokksins og er hluti þingflokksins því afar andsnúinn að fara í stjórnarmyndunarviðræður að því er Morgunblaðið segir frá.

Segir Katrín Jakobsdóttir formaður flokksins þar ýmsar ástæður geta legið að baki, en hún telji að flokkurinn eigi að láta reyna á það. „Ég tel að það sé hægt að ná góðum málefnasamningi en það er auðvitað ekkert í hendi,“ segir Katrín. „Fyrir mitt leyti er ekki hægt að vera andsnúinn fyrr en við erum komin með eitthvað í hendurnar, það er mín afstaða bara almennt.“

Kolbreinn Óttarson Proppé, þingmaður Vinstri grænna sagði í morgunútvarpinu á RÚV að honum þætti ekki rétt að útiloka neinn flokk og vísaði í innanflokksumræður, því flokkurinn sagði fyrir kosningar að enginn flokkur væri útilokaður og því væri óheiðarlegt að útiloka Sjálfstæðisflokkinn nú.