Ráðherrar varnar- og öryggismála í Nato ríkjunum hitta í fyrsta sinn nýjan varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, James Mattis, á fundi ríkjanna í Brussel sem haldinn er í dag og á morgun.

Búist er við því að Matis, sem gengur undir viðurnefninu Mad Dog eða óði hundurinn, leggja áherslu á stuðning og skuldbindingar Bandaríkjanna við bandalagið.

En á sama tíma er búist við að hann muni koma á framfæri kröfum Donald Trump Bandaríkjaforseta um að mörg ríki bandalagsins þurfi að auka hernaðarútgjöld sín.

Ummæli Trump valda aðildarríkjum áhyggjum

Donald Trump vakti áhyggjur margra í Nato ríkjunum með ummælum í kosningabaráttu sinni um að Bandaríkin muni mögulega ekki standa við skuldbindingar sínar gagnvart þeim bandamönnum sínum sem ekki leggi sanngjarnan hluta af mörkum til bandalagsins.

Sérstaklega hefur það vakið áhyggjur ríkjanna sem deila landamærum að Rússlandi, en Trump lýsti bandalaginu sem úreltu.

Fundurinn er haldinn á sama tíma og fréttir um tengsl lykilmanna í stjórn Trump við Rússland hafa vakið upp kröfur um rannsókn á hvort þjóðarörygisslög hafi verið brotin.

Guðlaugur Þór meðal fundargesta

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands er staddur á fundinum og átti hann fund með Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra bandalagsins um þróun öryggismála í Evrópu og tengslin vestur um haf.

Var á fundi þeirra enn fremur rætt um aukinn varnarviðbúnað bandalagsins og gerði utanríkisráðherra grein fyrir stefnu stjórnvalda í öryggis- og varnarmálum og auknum framlögum og virkari þátttöku í störfum Atlantshafsbandalagsins.

Einnig var rætt um viðbúnað og eftirlit á Norður-Atlantshafi í ljósi vaxandi mikilvægis svæðisins.

Öll ríki verði að leggja sitt af mörkum

„Því miður hafa öryggishorfur í Evrópu versnað á umliðnum árum og Atlantshafsbandalagið brugðist við með því að auka varnarviðbúnað sinn,“ segir Guðlaugur Þór í fréttatilkynningu um málið.

„Hér verða öll ríki að leggja sitt að mörkum og það kom skýrt fram í máli framkvæmdastjóra að framlag Íslands á síðustu árum og áratugum skiptir máli og er mikils metið.“