Greinilegt er af bréfunum tveimur, sem Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu hafa sent Samkeppniseftirlitinu, að aðilar í verslun og viðskiptum eru ekki sammála forstjóra Samkeppniseftirlitsins, Páli Gunnari Pálssyni, um leiðbeiningar og aðstoð sem hægt er að fá frá eftirlitinu.

Í Viðskiptablaðinu þann 29. mars síðastliðinn sagði Páll það ekki rétt að ekki sé hægt að leita eftir leiðbeiningum. Þær leiðbeiningar felist m.a. í því að benda á fyrri ákvarðanir, enda hafi eftirlitið fjallað um marga af mikilvægustu mörkuðunum í nýlegum ákvörðunum. Ekki sé hins vegar raunhæft að ætlast til þess að eftirlitið gefi fyrirfram út bindandi álit á því hver viðkomandi markaður er eða hvort viðkomandi fyrirtæki sé ráðandi á honum. Hver sem ástæðan kann að vera er ljóst af bréfunum tveimur að samtökin tvö telja ekki að leiðbeiningar þær sem hægt er að fá frá eftirlitinu núna séu fullnægjandi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum Tölublöð hér að ofan.