Primera Travel Group, móðurfélag Heimsferða á Íslandi, gekk nýlega frá kaupum á stærstu ferðaskrifstofu Írlands, Budget Travel að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Seljandi er þýski ferðarisinn TUI, en salan á Budget Travel var skilyrði evrópskra samkeppnisyfirvalda fyrir samruna TUI og bresku ferða-samstæðunnar First Choice.

Kaup Primera Travel Group á Budget Travel eru háð samþykki samkeppnisyfirvalda Evrópusambandsins. Kaupþing veitti Primera Travel Group ráðgjöf vegna kaupanna.

Í tilkynningu kemur fram að Budget Travel er í forystu á írskum ferðamarkaði og hefur um þriðjungs markaðshlutdeild, en félagið var stofnað árið 1975. Meira en 300 þúsund viðskiptavinir ferðast á ári hverju með félaginu og er velta þess áætluð um 160 milljónir evra á þessu ári. Fyrirtækið á og rekur 32 ferðaskrifstofur um allt Írland. Framkvæmdastjóri Budget Travel er Eugene Corcoran og heldur hann áfram störfum hjá félaginu.

Primera Air flugfélagið, sem er hluti af Primera Travel Group, mun reka tvær flugvélar í Dublin frá og með næsta vori til að þjóna viðskiptavinum Budget Travel og verður félagið þá alls með átta vélar í fullum rekstri árið um kring.

Andri Már Ingólfsson, forstjóri Primera Travel Group, segir í tilkynningu: ?Budget Travel er öflugt fyrirtæki sem hefur þegar brugðist af krafti og útsjónarsemi við þeim breytingum sem orðið hafa á alþjóðlegum ferðamarkaði. Budget Travel fellur mjög vel að starfsemi Primera Travel Group og hefur afar sterka stöðu á vinsælustu áfangastöðum ferðamanna í Evrópu. Kaupin munu styrkja stöðu Primera Group til áframhaldandi uppbyggingar á áfangastöðum sínum.?

Um Primera Travel Group
Primera Travel Group er ein af stærstu ferðaskrifstofum Norðurlanda og sú stærsta í einkaeigu. Yfir ein milljón farþega ferðast með félaginu á þessu ári og er áætluð velta ársins um 650 milljónir evra. Innan Primera Travel Group eru skrifstofurnar Heimsferðir og Terra Nova á Íslandi, Solresor í Svíþjóð, Bravo Tours í Danmörku, Solia í Noregi og Matkavekka og Lomamatkaat í Finnlandi. Flugfélagið Primera Air er einnig hluti af Primera Travel Group.