Steve Edmundson stýrir 35 milljarða dala lífeyrissjóði fyrir opinbera starfsmenn í Nevada í Bandaríkjunum.

Lífeyrissjóðurinn þykir þó nokkuð óeðlilegur, enda starfar aðeins einn einstaklingur hjá sjóðnum sem sjóðstjóri.

Wall Street Journal hefur fjallað um sjóðinn, enda hefur hann verið að skila lífeyrisþegunum betri ávöxtun en aðrir lífeyrissjóðir vestanhafs.

Forðast stressið

Edmundson forðast stressið sem flestir í fjármálaheiminum kannast við. Hann vinnur helst ekki nema bara milli 8 og 5.

Sjóðstjórinn reynir einnig að forðast að borða hádegismat á veitingahúsum. Eiginkona hans undirbýr oftast handa honum samloku og svo keyrir hann í vinnuna á 2005 Honda Element.

Edmundson reynir einnig að forðast það að lesa fréttir og samkvæmt opinberum gögnum námu árslaun kappans um 127.122 dölum.

Vill halda kostnaði lágum

Edmundson reynir ekki að sigra markaðinn með flóknum formúlum, heldur einbeitir hann sér að því að lágmarka kostnað og dreifa áhættu.

Meginþorri peningana rennur í ódýra vísitölusjóði, sem eiga að elta hlutabréfa og skuldabréfamarkaði.

Mikil áhættudreifing gerir Edmundson einnig kleift að hafa litlar áhyggjur af Trump og Brexit.

Breytti fyrirkomulaginu

Edmundson breytti fyrirkomulagi sjóðsins umtalsvert, þegar hann hóf störf árið 2005. Þá voru um 60% af peningum lífeyrisþeganna í vísitölusjóðum.

Árið 2012 tók hann sig svo til og rak alla sjóðstjórana og kom öllu fjármagninu í vísitölusjóði.

Í dag starfar hann einn og reynir að gera sem minnst, sem að hans sögn reynist erfiðara en það hljómar.