Þrátt fyrir að SMÁÍS, Samtök myndrétthafa á Íslandi, hafi unnið dómsmálið gegn deilisíðunni Istorrent er baráttan ekki á enda. Snæbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóri SMÁÍS, segir í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið, að munurinn á þessum nýju aðilum og Svavari Lútherssyni, sem var á bak við Istorrent, sé m.a. sá að hann hafi ekki falið sig.

„Hann faldi sig ekkert, heimasíðan var skráð á Íslandi og hann var skráður eigandi að fyrirtækinu sem hann hafði stofnað fyrir síðuna. Hann faldi það ekkert að hann væri maðurinn á bak við þetta, en eftir Istorrent flýðu torrentsíðueigendur til útlanda með skráningu og reyndu að fela eignarhaldið á síðunum sem mest þeir máttu.“

Hversu vel fylgist þið með þessum torrent síðum eins og deildu.net?

„Við fylgjumst talsvert vel með því og höfum miklu betri upplýsingar um þessa aðila en þá grunar. Það er alveg ótrúlegt hvernig þessir menn sem eru bak við þessar síður haga sér, þeir rífast kannski yfir pizzareikningi og þá er hefndin sú að hringja í okkur og segja frá öllu á bak við starfsemina. Í flestum tilfellum vitum við nákvæmlega hverjir eru aðilarnir á bak við síðurnar og hverjir eru stærstu aðilarnir í að setja efni inn á síðurnar.

Lesa má Ítarlegt viðtal við Snæbjörn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.