Í skýrslu, sem átaksópur um aðgerðir í húsnæðismálum birti á dögunum, segir að þrátt fyrir mikla uppbyggingu á húsnæðismarkaði í dag séu vísbendingar um að það framboð sem nú sé að myndast henti síður tekju- og eignalágum.

„Stór hluti lítilla íbúða sem eru í byggingu á höfuðborgarsvæðinu er í hverfum þar sem fermetraverð er hvað hæst,“ segir í skýrslunni. „Í þeim sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu þar sem fermetraverð er lægra virðist mest vera byggt af stærri íbúðum sem geta þar með síður talist hagkvæmar. Því er nauðsynlegt að ráðast í aðgerðir til að auka framboð hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði til leigu og eignar.“

Róttækar tillögur

Telur átakshópurinn að hægt sé að ráðast strax í aðgerðir til að auka framboð húsnæðis fyrir tekju- og eignalága á næstu misserum. Tvær af róttækustu tillögunum snúa að sveitarfélögunum. Til að stuðla að fjölbreytni og sveigjanleika er lagt til að ríki og sveitarfélög taki upp viðræður um að lögfesta skyldu sveitarfélaga til að taka þátt í uppbyggingu á almennum leiguíbúðum. Leggur hópurinn til að í skipulagsvinnu á nýjum reitum eða hverfum eigi að ráðstafa 5% af byggingarmagni til uppbyggingar á félagslegu leiguíbúðahúsnæði.

Hin tillagan er sótt til Danmerkur og kölluð Carlsbergákvæðið. Kveður hún á um að sveitarfélögum verði tryggðar heimildir í skipulagslögum til að gera kröfu um að allt að 25% af byggingarmagni samkvæmt nýju deiliskipulagi fyrir tilgreint svæði skuli vera fyrir almennar íbúðir, félagslegar íbúðir eða aðrar leiguíbúðir. Skal þetta hlutfall vera 25% hvort sem eigandi landsins er sveitarfélag, ríki eða einkaaðili.

Leggur átakshópurinn áherslu á að óhagnaðardrifin húsnæðisfélög  verði hluti af uppbyggingu  húsnæðismarkaðar  á næstu árum. Meðal annars geti þau komið að  uppbyggingu íbúða sem henta úrræðum stjórnvalda um  sértækar aðgerðir til að auðvelda ungu og tekjulágu fólki að kaupa sér íbúðarhúsnæði.

Aðgerðir á leigumarkaði

Átakshópurinn leggur fram nokkrar tillögur til að bæta leigumarkaðinn. Meðal annars er lagt til að ákvæði húsaleigulaga verði endurskoðuð til að bæta réttarstöðu leigjenda t.d. um ákvörðun leigufjárhæðar í upphafi leigu og heimildir til breytinga á henni á leigutíma, lengd og uppsögn leigusamninga, og möguleg viðurlög við brotum. Áréttar hópurinn að gæta  þurfi að því að breytingar á húsaleigulögum hækki ekki leiguverð eða dragi úr framboði á leigumarkaði.

Þá vill hópurinn að áhersla verði lögð á skráningu leigusamninga í opinbera gagnagrunna og að útfærðar verði leiðir til að hvetja aðila til að gera upplýsingar um leiguverð og lengd leigusamninga aðgengilegar, t.d. með því að binda skattaafslátt vegna langtímaleigu við skráningu í gagnagrunn.

Yfirsýn og upplýsingaflæði

Mikill skortur hefur verið á upplýsingum um byggingarframkvæmdir í sveitarfélögum, sem hefur meðal annars leitt til þess að sveitarfélögum hafa litla yfirsýn yfir framkvæmdir í nágrannasveitarfélögum sínum. Átakshópurinn leggur mikla áherslu á að úr þessu verði bætt.

Leggur átakshópurinn til að samstarf opinberra stofnana, sem hafa það hlutverk að safna og miðla upplýsingum um húsnæðismál, verði aukið. Einnig að myndaður verði öflugur samstarfsvettvangur opinberra aðila og þeir vinni að sameiginlegum skilgreiningum sem hægt verði að styðjast við. Þá leggur hópurinn til að stjórnvöld og sveitarfélög leggi sérstaka áherslu á vinnslu húsnæðisáætlana og sameiginlegrar þarfagreiningar fyrir húsnæði á skilgreindum svæðum og hugað verði að samspili milli skipulagsáætlana og húsnæðisáætlana. Í þessu sambandi leggur átakshópurinn ennfremur til að hafið verði átak til að safna upplýsingum um fjölda óskráðra íbúða og skilgreindir verði hagrænir hvatar sem leiða til þess að eigendur óskráðra íbúða sjái sér hag í því að íbúðin  komi fram í opinberum skráningum.  Hvað upplýsingaflæði snertir er einnig lagt til að almennar húsnæðiskannanir á landsvísu verði reglubundinn þáttur í upplýsingaöflun  hins opinbera. Slíkar kannanir verði hægt að leggja til grundvallar þegar þörf á húsnæði er metin.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu.. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .