*

föstudagur, 19. apríl 2019
Innlent 5. desember 2018 19:00

Rúm tvöföldun yfirbyggðra valla

Framkvæmdir við stækkun Tennishallarinnar í Kópavogi eru nú í fullum gangi.

Júlíus Þór Halldórsson
Jónas Páll Björnsson, framkvæmdastjóri Tennishallarinnar.
Aðsend mynd

Tennishöllin var opnuð í Kópavogsdalnum vorið 2007, en í henni eru þrír tennisvellir. Árið 2015 var ákveðið að byggja við aðstöðuna og bæta við tveimur svokölluðum harðgólfsvöllum, auk tveggja minni Padel valla. Ekki var einhugur um málið innan bæjarstjórnar Kópavogs, en á fundi um málið haustið 2015 lögðu tveir bæjarfulltrúar fram bókun þar sem harmað var að „ákveðnir bæjarfulltrúar ætli að knýja fram stækkun Tennishallarinnar inn í miðjan Kópavogsdal“, og lagst gegn því að höllin fengi að stækka „inn í eina fallegustu perlu Kópavogsbæjar.“

Jónas Páll Björnsson, framkvæmdastjóri Tennishallarinnar, benti hinsvegar á að svæðið sem um ræðir væri að mestu leyti malarplan sem notað hefði verið sem bílastæði. Tillagan var að lokum samþykkt eftir töluverða mótspyrnu innan kerfisins, og leyfi fékkst fyrir framkvæmdunum. Þær hófust svo síðasta sumar, og stefnt er að því að þeim ljúki á næsta ári.

Fleiri jákvæðir en neikvæðir

Jónas segir þó að mun fleiri hafi verið jákvæðir í garð málsins en neikvæðir, enda frábært mál. „Við vorum í nokkurn tíma að fá þetta í gegnum kerfið, en við fundum samt fyrir heilmiklum stuðningi við þetta innan bæjarkerfisins, og það var meirihluti fyrir þessu í bæjarstjórn. Sumir þar höfðu einhverjar efasemdir um þetta, en mér sýndist nú við lokaafgreiðsluna að flestir hefðu verið með.“

Andstaða bæjaryfirvalda við viðbótina er athyglisverð í ljósi þess hve mikla áherslu bærinn hefur lagt á uppbyggingu íþróttamannvirkja, en á árunum 2002 til 2010 voru 10 milljarðar króna eyrnamerktir til slíkra verkefna hjá bænum.

Tennishöllin er einkafyrirtæki og stækkunin því einkaframkvæmd, þótt Jónas bendi á að reksturinn njóti óbeins stuðnings í formi leigu tennisfélaga á höfuðborgarsvæðinu á vallarplássi, sem fá til þess fjármagn frá sveitarfélögum. Hann segir stækkunina hafa verið skipulagða í samráði við félögin. „Við höfum unnið svolítið með opinberum aðilum að þessu, og þetta er náttúrulega tennishöll sem þjónar öllu stórreykjavíkursvæðinu. Þannig að þetta hefur verið rosalega hagstæður kostur, því í raun og veru eru sveitarfélögin öll hérna inni hjá okkur.“

Fyrstu Padel vellir landsins

Padel er spaðaíþrótt sem var fundin upp árið 1969 í Mexíkó, en hefur nýlega hafið innreið sína til Evrópu. Padel völlum fjölgaði um 70% í Portúgal, og 76% í Bretlandi milli ára, og í dag státar heimsálfan af yfir 12 þúsund völlum. Þess má auk þess geta að Sænska knattspyrnugoðið Zlatan Ibrahimović opnaði nýlega stóra Padel-miðstöð í heimalandinu.

Jónas segir íþróttina líklega í einna mestum vexti allra íþrótta í heiminum í dag, en viðbótin við Tennishöllina mun innihalda tvo Padel velli. „Padel er svolítið skemmtilegt að því leyti að á meðan það er svolítil alvara í tennisnum og hann er mjög flott íþrótt, bæði tæknilega, líkamlega, og einnig andlega, þá er kannski padelið aðeins léttara og meira félagslegt, menn hlæja og hafa gaman. Það eru yfirleitt fjórir sem spila, og eru í meira návígi, þetta er minni völlur. Þetta er svona svolítið önnur vídd í klúbbinn, við erum að reyna að setja klúbbinn á annað stig.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

 • Umfjöllun um möguleg kaup Indigo Partners á WOW air.
 • Viðtal við framkvæmdastjóra Icelandic Lamb.
 • Úttekt á íbúðalánum bankanna.
 • Viðtal við Sigurð Viðarsson, forstjóra TM.
 • Umfjöllun um verðmat Capacent á Arion banka.
 • Huginn og Muninn eru á sínum stað. 
 • Týr fjallar um Klaustursmálið.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

 • - Viðskiptablaðið sent heim
 • - Vefaðgangur að vb.is
 • - Frjáls verslun sent heim
 • - Fiskifréttir sent heim