Á árunum 2000 til 2016 hefur sala á íslensku neftóbaki fjórfaldast. Árið 2000 seldi ÁTVR 10,2 tonn af neftóbaki en á þessu ári er áætlað að 40,1 tonn af neftóbaki verði seld. Þetta kemur fram í umsögn ÁTVR um ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

„Kannanir sýna að það tóbak sem hér er selt og markaðssett sem neftóbak er í yfirgnæfandi meirihluta tilvika tekið í  munn og notendur þess að stórum  hluta ungt fólk og nýir tóbaksneytendur,“ segir til að mynda í umsögninni.

ÁTVR bendir jafnframt á að stofnunin treysti sér ekki lengur að gera greinarmun á milli munntóbaks og neftóbaks og hafi því þurft að leita til heilbrigðisráðuneytisins til þess að greina á milli munntóbaks og neftóbaks, þar sem að neftóbakið er löglegt en munntóbakið ólöglegt.