*

sunnudagur, 24. febrúar 2019
Innlent 4. febrúar 2010 14:04

Samvinnumenn sýsluðu með fjármuni sem þeir áttu ekki

Lagastofnun Háskóla Íslands segir það ótvírætt að slíta hefði átt Samvinnutryggingum 1994

Magnús Halldórsson

Í skýrslu Lagastofnunar Háskóla Íslands um starfsemi Samvinnutrygginga, sem Stefán Már Stefánsson lagaprófessor vann og birt var á vef Lagastofnunar í gær, kemur fram að slíta hefði átt starfsemi Samvinnutrygginga árið 1994 og að stjórnarmönnum „hverjum um sig, hafi borið að sjá til þess að félaginu yrði slitið. Slík skylda er brýn og augljós miðað við gildandi löggjöf," segir orðrétt í ítarlegri skýrslu Lagastofnunar sem er samtals 123 blaðsíður.

Segir að eigendur fjármuna Samvinnutrygginga, tryggingartakarnir, hefðu átt að fá fjármunina eftir slitin á félaginu. Í stað þess var sýslað með fjármunina í tugmilljarða fjárfestingum um árabil.

Þá segir ennfremur í samantektarkafla skýrslunnar, þar sem rætt er um þá ráðstöfun forsvarsmanna Samvinnutrygginga að færa félagið yfir í Eignahaldsfélagið Samvinnutryggingar:

„Ljóst er að samkvæmt því sem rakið er í kafla 9.7 að félagsslit fóru ekki fram á Samvinnutryggingum g.t. á þessum tíma hvorki með samruna né öðrum hætti. Breyting sú sem hér um ræðir, þ.e. að færa félagið (Samvinnutryggingar g.t.) úr einu formi yfir í annað (Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar) án skuldaskila er talin svo veruleg bæði að formi og efni að telja verður hana hafa falið í sér lagaskyldu til að slíta Samvinnutryggingum g.t. og að gera félagið upp með þeim réttindum og skyldum sem gæta bar samkvæmt gildandi löggjöf. Virðist mega miða þessa skyldu við aðalfund félagsins 8. júní 1994 en þá var m.a. samþykkt að breyta nafni félagsins eða 13. febrúar 1995 þegar starfsleyfi Samvinnutrygginga var afturkallað."

Í skýrslunni segir einnig að einstaka stjórnarmenn kynnu að hafa verið bótaskyldir gagnvart tryggingartökum Samvinnutrygginga að því marki sem rekja mætti til athafna eða vanrækslu þeirra að félaginu var ekki slitið "heldur rennt heimildarlaust inn í annað félag," eins og orðrétt segir í skýrslunni. Stefán Már telur hins vegar að brotin séu fyrnd á tíu árum og forsvarsmenn Samvinnutrygginga því ekki bótaskyldir. Ekki síst í ljósi þess að fyrrum tryggingartakar hafi samkvæmt lögum geta krafist þess að Samvinnutryggingar g.t. yrðu teknar til skipta eftir árið 1994 en ekki gert það.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér.