Samkeppniseftirlitið hefur ógilt samruna sem áformaður var með kaupum Lyfja og heilsu hf. á Opnu ehf., samkvæmt tilkynningu frá eftirlitinu.

Tillögur sem Lyf og heilsa lögðu fram til að vinna gegn samkeppnishömlum vegna samrunans duga ekki að mati Samkeppniseftirlitsins og er því samruninn ógiltur í samræmi við ákvæði samkeppnislaga.

Fram kemur að Lyf og heilsa reki 30 apótek um landið annars vegar undir heitinu Lyf og heilsa og hins vegar Apótekarinn, og séu einn stærsti lyfjasmásali á landinu. Opna rekur eitt apótek í Mosfellsbæ, Apótek MOS. Það apótek var opnað um mitt ár 2016. Áður en Apótek MOS hóf starfsemi var eitt apótek í Mosfellsbæ, Apótekarinn í eigu Lyfja og heilsu. Í dag eru Apótek MOS og Apótekarinn einu lyfjaverslanirnar í Mosfellsbæ.

Rannsókn Samkeppniseftirlitsins er sögð sýna að innkoma Apóteks MOS hafi haft mjög góð áhrif á samkeppni á svæðinu. Apótek MOS hafi boðið upp á nýja þjónustu í formi skipulags verslunarinnar og aðstoðar lyfjafræðinga. Þá hafi opnunartími verið lengri en áður hafi tíðkast í Mosfellsbæ. Gögn málsins eru sögð sýna að neytendur hafi tekið þessum nýja valkosti vel og samkeppni frá Apóteki MOS haft veruleg áhrif á rekstur Apótekarans í Mosfellsbæ.

Upplýst er sagt í málinu að Lyf og heilsa hafi sett sig í samband við forsvarsmann Apóteks MOS um möguleg kaup á félaginu, og samningar náðst.

„Ef samruninn yrði að veruleika myndi sú samkeppni sem Apótek MOS veitir umræddu útibúi Lyfja og heilsu hverfa. Tók Samkeppniseftirlitið til rannsóknar að hvaða marki apótek í nágrannasveitarfélögum gætu veitt samkeppnislegt aðhald. Lét eftirlitið framkvæma neytendakönnun í Mosfellsbæ og setti sig í samband við fjölda lyfsöluleyfishafa á höfuðborgarsvæðinu. Rannsókn Samkeppniseftirlitsins hefur leitt í ljós að lyfsala í Mosfellsbæ er mjög staðbundin. Þannig sýnir rannsóknin að staðsetning apóteka hefur mikil áhrif á val viðskiptavina á apóteki. Neytendur kjósa almennt að eiga viðskipti við apótek sem eru sem næst heilsugæslustöðvum/læknastofum eða heimilum þeirra. Á þetta ekki síst við í tilviki aldraðra eða þegar aðkallandi er að fá lyf í hendur. Í samræmi við þetta sýndi rannsóknin að hátt hlutfall viðskiptavina apótekanna í Mosfellsbæ eru Mosfellingar, auk þess sem nokkuð langt er í önnur apótek. Af þessu leiðir að samruni umræddra apóteka myndi valda viðskiptavinum þeirra verulegu samkeppnislegu tjóni.“