*

mánudagur, 23. október 2017
Innlent 4. júlí 2012 18:14

Segir Iceland Express reyna að breiða yfir kæru

Forstjóri Wow air segir að Iceland Express verði væntanlega rannsakaðar af lögregluyfirvöldum fyrir njósnir.

Gísli Freyr Valdórsson
Baldur Oddur Baldursson, forstjóri Wow air.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Baldur Oddur Baldursson, forstjóri Wow air, segir hjákátlegt að forstöðumenn Iceland Express hafi reynt að breiða yfir kæru vegna njósna með því að bregða fyrir sig sjö mánaða gamalli lögmannsbeiðni sem ekki hefði fengist samþykkt.

Eins og fram kom á vef Viðskiptablaðsins fyrr í dag sökuðu forsvarsmenn Iceland Express, á blaðamannafundi fyrr í dag, Matthías Imsland, fyrrv. forstjóra félagsins, um að hafa tekið með sér trúnaðargögn eftir að hann hætti störfum hjá félaginu sl. haust og um að hafa undirbúið stofnun nýs flugfélags á meðan hann gegndi starfi forstjóra. 

Eins og fram kemur í fréttaskýringu Viðskiptablaðsins um málið sem birtist fyrir stundu reyndust ásakanir um að Matthías hafi verið byrjaður að undirbúa stofnun nýs flugfélags rangar.

Viðskiptablaðið leitaði viðbragða forsvarsmanna Wow air eftir blaðamannafund Iceland Express fyrr í dag. Í skriflegu svari segir Baldur Oddur að Iceland Express hafi ekki haft nein gögn í höndunum til að styðja við lögbannskröfu sína enda hafi hún verið rekin til baka bæði af Sýslumanninum í Reykjavík og Héraðsdómi. 

Svar Baldurs Odds má sjá hér að neðan:

„Okkur finnst hjákátlegt að forstöðumenn Iceland Express reyni að breyða yfir kæru vegna njósna með sjö mánaða gamalli lögbannsbeiðni sem þeir hafa þegar verið reknir með til baka frá Sýslumanninum í Reykjavík sem hafnaði beiðninni,  þar sem IE hafði ekkert til að styðja sitt mál.  Þeir fóru einnig með málið fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur en drógu það til baka af sömu ástæðu, þ.e. ekkert haldbært sem studdi lögbannsbeiðni.

Njósnir sem þeir eru kærðir fyrir verða væntanlega rannsakaðar af lögregluyfirvöldum og á meðan það stendur yfir viljum við ekki ræða þær frekar.“