Kristján Daníelsson framkvæmdastjóri Reykjavík Excursions-Kynnisferða segir komandi kosningar áhugaverðar fyrir margra hluta sakir.

„Það eru margir flokkar og fullt af óvæntum útspilum og mikil tækifæriskosningapólítík í gangi,“ segir Kristján. „Maður hefur áhyggjur af því að eftir því sem fleiri flokkar koma saman, því erfiðara verður að ná samkomulagi.“

Of tækifærisinnað

Kristján hefur þó mestar áhyggjur af því að stjórnmálamenn séu að missa sjónar á heildarmyndinni og kasti þeirri grunnvinnu sem búið er að vinna á glæ.

„Í kosningum þá breytast áherslur og menn missa sjónar á meginmarkmiðunum,“ segir Kristján. „Margt gagnvart til dæmis ferðaþjónustunni hefur verið of tækifærissinnað, það er hlaupið til og sagt það sem fólk vill heyra, en minni áhersla lögð á aðalatriðin.“

Samfylkingin fer villur vegar

Nefnir hann sem dæmi skort á einhvers konar heildstæðri stefnu gagnvart ferðaþjónustunni hjá flokkunum, þar sem þeir listi hvað þurfi að gera og hvernig þeir ætli að gera það þó hann sé ánægður með háleit markmið um verndun náttúrunnar sem margir flokkar hafa lýst yfir.

„Það er í raun einungis einn flokkur sem er búinn að því og hann er að fara villur vegar,“ segir Kristján og vísar í tillögur um að færa ferðaþjónustuna úr lægra upp í hærra virðisaukaskattþrepið. „Það er Samfylkingin sem ætlar að hækka virðisaukaskattinn úr 11 upp í 24,5%"

Ferðaþjónustan alvöru atvinnugrein

Kristján segir mikilvægast að hér á landi náist stöðugleiki til langframa og jafnvægi náist á gengi krónunnar.

„Það er gríðarlega mikil óvissa gagnvart ferðaþjónustunni út af genginu. Ég vona svo sannarlega að stjórnmálamenn átti sig á því að ferðaþjónustan er alltaf að vinna til langs tíma þannig að allar breytingar með skömmum fyrirvara eru gríðarlega slæmar fyrir hana,“ segir Kristján.

„Þeir verða að fara að líta á ferðaþjónustuna sem alvöru atvinnugrein og stuðla að stefnumótun til framtíðar, í stað þess að reyna að hlaupa í burtu með gullpottinn núna.“