Í heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu í dag auglýsir Iceland Watch að það sem þeir kalla mismununarstefna íslensku gjaldeyrishaftanna kosti sérhvern íslenskan ríkisborgara 15 til 20 þúsund Bandaríkjadali árlega.

Iceland Watch er verkefni á vegum Institute for Liberty í Bandaríkjunum, er merkt samtökunum og forseta þeirra, Andrew Langer.

Segja Íslendinga greiða fyrir opinbera spillingu

Fyrirsögnin sem skrifuð er undir flennistórri mynd af Má Guðmundssyni Seðlabankastjóra spyr hver greiði fyrir opinbera spillingu og mismununarrreglur á Íslandi? Síðan er spurningunni svarað með orðunum „Það gerir þú!“

Auglýsing segir að ákvörðun Seðlabankans um að mismuna fjárfestum þannig að aðeins þeir sem eru af innlendum uppruna geti fjárfest hafi verið gagnrýnd á alþjóðlegum vettvangi.

Segja gjaldeyrishöftin hafi kostað 30 þúsund störf

„Samkvæmt nýrri rannsókn sem gerð var af rannsóknarteymi í Bretlandi hindrar mismununarstefna íslensku gjaldeyrishaftanna að 30.000 störf skapist og kostar þjóðina milli 5.000.000.000 og 9.000.000.000 Bandaríkjadali í landsframleiðslu árlega,“ segir í auglýsingunni og svo kemur í feitletri.

„Þetta kostar sérhvern íslenskan ríkisborgara 15.000 og 27.000 Bandaríkjadali árlega.“

Í framhaldinu kemur texti um innanhúsrannsókn á Sturlu Pálssyni sem fjallað var um í Kastljósi á dögunum líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um. Textinn er á köflum nokkuð stirðbusalegur en hann má lesa allan á blaðsíðu 7 í Morgunblaðinu í dag.