Sjóðir sem leiddir eru af ráðgjafafyrirtækinu Apax Partners hafa náð samkomulagi við hluthafa lyfjafyrirtækisins Invent Farma um kaup á fyrirtækinu. Stærstu hluthafar Invent Farma eru Framtakssjóður Íslands, Silfurberg í eigu Friðriks Steins Kristjánssonar og fjárfestingarsjóðurinn Horn II. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá fyrrverandi eigendum Invent Farma.

Verð kaupanna er trúnaðarmál. Apax Partners hafa á meira en þriggja áratuga starfstíma unnið að fjárfestingum fyrir sjóði að fjárhæð yfir 38 milljarða dollara. Sú deild Apax sem kom að þessum viðskiptum hefur á undanförnum árum unnið að fjárfestingum fyrir framtakssjóði innan heilsugeirans.

Invent Farma á rætur að rekja til kaupa íslenskra fjárfesta undir forystu Friðriks Steins Kristjánssonar á lyfjaverksmiðju á Spáni árið 2005. Framleiðsla félagsins skiptist í samheitalyfjaframleiðslu og framleiðslu á virkum lyfjaefnum. Framtakssjóður Íslands keypti 38% hlut sumarið 2013 og Horn ásamt meðfjárfestum 16,8% af hluthöfum félagsins. FSÍ, Silfurberg og Horn voru þá stærstu hluthafar félagsins.