Bræðurnir Karl og Steingrímur Wernerssynir hafa verið ákærðir fyrir umboðssvik og brot á lögum um bókhald og ársreikninga í tengslum við 4,8 milljarða króna greiðslu Milestone til systur þeirra, Ingunnar Wernersdóttur á árunum 2006 og 2007 að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag. Karl og Steingrímur áttu meirihluta í Milestone og sátu í stjórn félagsins.

Þar segir að sérstakur saksóknari hafi í gær birt sex manns ákæru vegna málsins. Auk Karls og Steingríms var Guðmundi Ólasyni, fyrrum formanni Milestone, einnig birt ákæra sem og þremur endurskoðendum hjá endurskoðendaskrifstofunni KPMG. Ákæran verður þingfest í september, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Málið snýst um greiðslur frá fjárfestingarfélaginu Milestone til Ingunnar árin 2006 og 2007 til systur þeirra, en á tímabilinu fékk  Ingunn um 4,8 milljarða. Greiðslurnar bárust henni mánaðarlega á grundvelli samkomulags um að hún léti af hendi öll bréf sem hún átti í félaginu. Ingunn er ekki ákærð í málinu á grundvelli þess að hún var ekki í formlegri aðstöðu til að skuldbinda Milestone með þeim hætti sem sérstakur saksóknari telur hafa verið refsiverður.