*

mánudagur, 19. nóvember 2018
Innlent 5. desember 2017 14:47

SI segja stjórnarsáttmálann lofa góðu

Framkvæmdastjóri SI segir góð fyrirheit í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar, en eitt sé að sjá orð á blaði.

Ritstjórn
Eva Björk Ægisdóttir

„Stjórnarsáttmálinn lofar góðu og þarna eru góð fyrirheit,“ segir Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins í viðtali í morgunþætti Rásar 1 á RÚV í morgun að því er segir á vef SI.

„Ég fagna áherslu á uppbyggingu innviða, á nýsköpun og menntun. Þarna er verið að fjárfesta til framtíðar og samfélagið búið undir breytingar samhliða fjórðu iðnbyltingunni og tæknibreytingum.“ Björn Þór Sigbjörnsson, þáttastjórnandi, ræddi við Sigurð um innviðauppbyggingu sem var eitt af stóru kosningamálunum og nýjan stjórnarsáttmála.

Björn Þór sagði Samtök iðnaðarins hafa lengi bent á mikilvægi þess að hér þurfi að styrkja innviði, að hér þurfi að ráðast í nýframkvæmdir og viðhald. Hann spurði Sigurð hvort honum fyndist þau áform sem fram koma í stjórnarsáttmálanum metnaðarfull? 

„Þau eru það og það er nú þannig að Samtök iðnaðarins eru stærstu og öflugustu samtök atvinnurekenda á Íslandi og við erum hreyfiafl í samfélaginu,“ segir Sigurður Hannesson sem er samhljóma viðtali við hann í Viðskiptablaðinu á sínum tíma.

„Við viljum beita okkur með þeim hætti að greina hluti, finna lausnir, leggja þær til í umræðunni til að hafa jákvæð áhrif og eiga gott samtal við stjórnvöld til þess að ná fram umbótum í íslensku samfélagi. Ekki bara fyrir atvinnulífið heldur fyrir okkur öll. 

Þess vegna erum við að leggja áherslu á innviðina meðal annars því það snýr að samkeppnishæfni landsins sem er svo mikilvægt að sé í lagi. Það hefur víðtæk áhrif á allt saman og almennt á lífsgæði í landinu.“

Sigurður segir jafnframt í viðtalinu að eitt sé að sjá orð á blaði. „En nú auðvitað hlakka ég til þess að sjá þetta verða að veruleika á næstu árum. Við erum reiðubúin í þau uppbyggilegu samskipti sem að ný ríkisstjórn boðar. Við viljum starfa með stjórnvöldum og samfélaginu að því að ná fram umbótum í landinu.“