Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknar og forsætisráðherra, hyggst ekki gefa kost á sér í framboði fyrir flokkinn og ætlar að mynda nýtt stjórnmálaafl. Þetta kemur fram í langri færslu á vefsíðu Sigmundar Davíðs.

Sigmundur Davíð segir að það sé ákveðinn hópur innan flokksins sem er reiðubúinn til að fórna öðrum kosningum og gæfu og gengi flokksins til að losna við sig og aðra sem eru ekki þeim að skapi og að því gefnu hefur hann ákveðið að velja þann kost að vinna að myndun nýs stjórnmálaafls, sem sé reiðubúið að starfa á sömu forsendum og leitast var við að gera frá 2009 til 2016 þegar Framsóknarflokkurinn var undir hans forystu.:

„Bjóða upp á valkost sem svarar kalli tímans og bregst við upplausnarástandi stjórnmálanna með skynsemishyggju og réttlæti að leiðarljósi. Vinna með traustu og heiðarlegu fólki að því að mynda flokk sem hefur þolgæði og kraft til að standa vörð um það sem er sanngjarnt og rétt, líka þegar það er erfitt. Flokk sem getur veitt stöðugleika og staðið vörð um hefðbundin grunngildi en er um leið flokkur hugmyndaauðgi og framfara. Flokk sem leitar til þeirra sem best þekkja til á hverju sviði og styður góðar hugmyndir sama hvaðan þær koma,“ skrifar Sigmundur.

Hægt er að lesa ítarlega færslu Sigmundar hér.