Sigurður Atli Jónsson, stjórnarformaður ILTA Investments, hefur tekið sæti í stjórnum Arctic Green Energy á Íslandi og í Singapore. Arctic Green Energy sérhæfir sig í endurnýjanlegri orku að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Stærsta verkefni Arctic Green Energy er sameiginlegt með Sinopec í Kína. Samstarfsfélagið heitir Sinopec Green Energy og starfrækir stærstu jarðvarmahitaveitu í heimi.

„Á starfsferli mínum hef ég leitt þrjú fjármálafyrirtæki og tekið að mér fjölmörg krefjandi verkefni. Þetta nýjasta verkefni mitt er hins vegar það mikilvægasta sem ég hef tekið að mér til þessa. Stríðið gegn loftmengun og loftlagsbreytingum er háð alþjóðlega. Það krefst alþjóðlegrar samvirkni sem byggir á sérgreindum aðgerðum og snjöllum lausnum. Það er heiður að fá tækifæri til að heyja það stríð með framúrskarandi starfsfólki hjá Arctic Green Energy og Sinopec Green Energy,“ er haft eftir Sigurði Atla í tilkynningu.