Sigurður Ingi Jóhannsson, fyrrum forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, spyr á Facebook-síðu sinni hvort að það eigi ekki að segja satt.

Þá bendir hann á að hann hafi spurt Benedikt Jóhannesson, efnahags- og fjármálaráðherra, að því í fyrirspurnartíma á Alþingi, hvort verðlauna ætti þá vogunarsjóði sem ekki tóku þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabankans í fyrra. „Tilefnið var að fyrir stuttu var blásið [...] til leynifundar í New York með fulltrúum vogunarsjóðanna,“ skrifar Sigurður Ingi.

„Orðrétt svaraði ráðherra því til að á „… þeim fundi var ekki gengið frá neinum samningum af neinu tagi, …“. Svo mörg voru þau orð, sem féllu um miðjan dag 9. mars. Liðu nú þrír sólarhringar. Þá blæs ráðherra til fundar með frænda sínum forsætisráðherranum og seðlabankastjóra og tilkynnir um losun hafta. Og í ofanálag hefur hann gefið vogunarsjóðunum veglegan afslátt af því gengi sem ákveðið var að bjóða þeim í fyrra,“ bætir Sigurður Ingi við.

Hann tekur jafnframt fram að Seðlabankastjóri hafi sagt í samtali við Morgunblaðið í gær að verðið sé afrakstur samtala milli bankans og fulltrúa krónueigenda. „Við engan var búið að semja á fimmtudegi, en við nokkra á sunnudegi. Það má vel vera að efnahags- og fjármálaráðherra sé ókunnugt um hvað fulltrúar Seðlabankans og erlendra vogunarsjóða véla sín á milli. En það er í besta falli ótrúlegt,“ skrifar hann að lokum.

Hægt er að lesa skrif Sigurðar Inga í heild sinni hér;

Á ekki að segja satt!!

Ekki alls fyrir löngu spurði ég efnahags- og fjármálaráðherra að því í fyrirspurnartíma á Alþingi, hvort verðlauna ætti þá vogunarsjóði sem ekki tóku þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabankans í fyrra. Tilefnið var að fyrir stuttu var blásið var til leynifundar í New York með fulltrúum vogunarsjóðanna. Orðrétt svaraði ráðherra því til að á „… þeim fundi var ekki gengið frá neinum samningum af neinu tagi, …“. Svo mörg voru þau orð, sem féllu um miðjan dag 9. mars. Liðu nú þrír sólarhringar. Þá blæs ráðherra til fundar með frænda sínum forsætisráðherranum og seðlabankastjóra og tilkynnir um losun hafta. Og í ofanálag hefur hann gefið vogunarsjóðunum veglegan afslátt af því gengi sem ákveðið var að bjóða þeim í fyrra. Seðlabankastjóri segir í samtali við Morgunblaðið í gær, að verðið (það er nýja verðið sem vogunarsjóðunum býðst) sé „… afrakstur samtala milli bankans og fulltrúa krónueigenda.“ Við engan var búið að semja á fimmtudegi, en við nokkra á sunnudegi. Það má vel vera að efnahags- og fjármálaráðherra sé ókunnugt um hvað fulltrúar Seðlabankans og erlendra vogunarsjóða véla sín á milli. En það er í besta falli ótrúlegt.