Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, segir mikil tækifæri vera til staðar á sjónvarpsmarkaði og að hann hafi í raun aldrei verið sterkari en einmitt nú.

Ef maður horfir á sjónvarpsmarkaðinn, þá er hann að breytast svolítið og fólk pælir minna í línulegri dagskrá og vill geta valið sér afþreyingu. Sérðu það sem áhyggjuefni eða tækifæri samhliða kaupunum á 365?

„Ég held að þetta sé einmitt hluti af ástæðunni fyrir þessari alþjóðlegu þróun, að fjarskiptafyrirtæki séu að sameinast með þessum hætti við fjölmiðla- og afþreyingarfyrirtæki. Áhugi fólks á góðu efni er alls ekki að minnka, en umhverfið er hins vegar að verða flóknara. Í raun má segja að sjónvarpið hafi aldrei verið sterkara, ef þú skilgreinir sjónvarpið sem myndmiðlunina í öllum þeim tækjum sem okkur dettur í hug. Myndmiðlun í tækjum er það sem er búið að drífa áfram okkar vöru, sem er í rauninni gagnamagnið. Það má segja að þetta sé drifkraftur gagnamagnsaukningarinnar sem hefur átt sér stað.

Ástæðan fyrir því að fjarskiptafyrirtæki eru að stíga inn í þetta er til að tryggja hnökralausa upplifun á efni hvar og hvenær sem er, það að fólk fái efni á því formi sem hentar því í það tæki sem hentar því. Ég held að fjarskiptafyrirtækin séu sterk í að framkvæma þetta, vegna reynslu þeirra af fjarskiptageiranum og fjölmörgum tegundum vöruþróunar.“

Fólk hefur haft mikinn aðgang að ókeypis efni í gegnum ólöglegt niðurhal, en eftir því sem möguleikum fjölgar til að borga fyrir efnið á þægilegan máta, heldurðu að fólk muni í auknum mæli kjósa að borga?

„Mér finnst það vera góð lýsing og við sjáum það á erlendum aðilum á borð við Netflix og Spotify sem notið hafa mikillar velgengni. Ég geri ráð fyrir að Spotify hafi dregið mjög úr þörf fólks til að hlaða niður efni á sjóræningjasíðum, þar sem það fær aðgang að því efni streymt í Spotify í áskriftarmódeli.

Ég heyri stundum að áskriftarsjónvarp sé að gefa eftir og mér finnst umræðan um það svolítið fyndin, vegna þess að Netflix er auðvitað ekkert annað en áskriftarsjónvarp sem nýtur gríðarlegrar velgengni. Þessi áskriftarhugsun er mjög heillandi fyrir okkur fjarskiptafyrirtækin, því við viljum vera í áskriftarbransanum og sendum út gríðarlega marga reikninga vegna áskrifta í hverjum mánuði. Við erum stöðugt að vinna í að gera viðskiptavininum auðveldara að kaupa þjónustu eða breyta henni, sem passar mjög vel við þetta líkan, en á sama tíma erum við að sjá mun meiri samkeppni á Íslandi með þessum erlendu efnisveitum og nú er svo komið að Netflix er langstærsti veitandi áskriftarsjónvarps á Íslandi með um 44% heimila. Ég held það verði bara spennandi að takast á við þessa þróun.

Mér fannst þegar Netflix kom til Íslands að fólk talaði eins og Netflix „tæki markaðinn“, það myndu allir segja upp öllum öðrum áskriftum. En þetta er ekki þannig og fólk kaupir aðrar áskriftir líka þó að þessar nýju veitur komi inn. Það er líka þannig í Bandaríkjunum, þaðan sem þessar veitur koma, að fólk fjölgar þeim áskriftum sem það er með og rað­ ar saman pökkum út frá sínu áhugasviði. Á Íslandi tel ég líka að allir aldurshópar hafi áhuga á íslensku efni og hafi þörf á því að það sé eitthvað íslenskt menningarlegt samhengi í tengslum við það efni sem það er að leigja, t.d. íslenskur texti og íslensk talsetning fyrir börnin. Það er þess vegna nauðsynlegt að íslenskir miðlar séu faglega og efnahagslega sterkir til að geta staðist þessa miklu samkeppni sem kemur erlendis frá í dag og á næstu árum.

Við höfum verið með okkar vöru, Vodafone Play, í samkeppni við Netflix allan tímann. Við reyndar hönnuðum okkar vöru með það í huga að fólk gæti keypt bæði Netflix og Play, við hugsuðum ekki að fólk yrði að velja annað hvort, heldur pössum við að vera ekki með sama efni á Play og á Netflix. Ég held það sé mikilvægt að hugsa þetta þannig. Þú þarft ekki endilega að vera með heildarpakkann og fólk getur alveg haldið áfram að vera með Netflix, þess vegna bætt við sig Amazon og verið svo með aðrar áskriftir sem eru íslenskari.“

Nánar er fjallað við Stefán í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .