Við vettvangseftirlit Ríkisskattstjóra voru þrem starfstöðvum lokað tímabundið. Þetta kemur fram á heimasíðu RSK . Vettvangseftirlit Ríkisskattstjóra sinnir því að heimsækja rekstraraðila og fara yfir hvort staðgreiðsluskil, virðisaukaskattsskil og tekjuskráning virðist vera í lagi.

Gerðar voru athugasemdir vegna staðgreiðsluskila hjá 670 fyrirtækjum, vegna virðisaukaskattsskila hjá 204 fyrirtækjum og vegna tekjuskráningar hjá 132 fyrirtækjum. Heimsóknir sem lauk án athugasemda voru 1.626. Skoðað var hvort 5.839 kennitölur einstaklinga væru á staðgreiðsluskrá og var það uppfyllt í 93% tilvika en 413 einstaklingar voru ekki á staðgreiðsluskrá, eða 7% þeirra sem skoðaðir voru. Í þremur tilvikum var starfsstöðvum lokað tímabundið.

Á fyrstu átta mánuðum ársins voru 2.462 fyrirtæki heimsótt. Ef heimsóknir eru flokkaðar eftir atvinnugreinum voru 859 til fyrirtækja í byggingargeiranum, 891 í tengslum við gistingu, ferðaþjónustu og veitingastaði, fyrirtæki í verslun og þjónustu voru 457 og verkstæðis- og bílaþjónustu 123. Eftir standa þá 132 fyrirtæki sem voru í annarri starfsemi en áður er talið.