Á síðasta ári skilaði 365 miðlar 22 milljóna hagnaði, sem er mikill viðsnúningur frá fyrra ári þegar tap var uppá 1,4 milljarða króna af rekstri félagsins. Á sama tíma voru skuldir fyrirtækisins auknar um 34% í 4,8 milljarða króna en þær voru einnig endurfjármagnaðar og skipt var um viðskiptabanka fyrirtækisins þar sem Arion banki bauð hagstæð langtímalán.

Aukin greiðslubyrði

Mun greiðslubyrðin aukast við þessar breytingar um 1,3 milljarða á næstu árum, en á þessu ári koma 452 milljónir til greiðslu. Handbært fé stóð í 651 milljón króna í lok síðasta árs sem er töluverð aukning frá 32 milljónum ársins á undan, og verðmæti dagskrárliða jókst í tvo milljarða úr 1,5 milljörðum.

Óefnislegar eignir eins og viðskiptavild, samningsbundin réttindi, leyfisgjöld, áskriftarsamningar og hugbúnaður eru langstærsti hluti eigna félagsins, 6,5 milljarðar eða 82% af 8 milljarða heildareignum þess.

Beðið niðurstöðu dómsmáls

Samkvæmt ársreikningi félagsins færir það einnig 703 milljóna króna skattaeign til bókar en ekkert er gjaldfært á rekstrarreikning félagsins vegna óvissu um skattamál því félagið stendur í dómsmáli við skattayfirvöld um hvort því hafi verið heimilt að draga vaxtagjöld frá skattskyldum tekjum sínum.

Mun tap á því máli geta haft á áhrif á eigið fé samstæðunnar sem nemur 584 milljónum króna vegna rekstraráranna 2009 til og með 2015 samkvæmt frétt mbl.is .