Myndaspjallforritlingurinn Snapchat miðlar nú einhverjum 6 milljörðum myndbanda til notenda sinna á hverjum einasta degi, samkvæmt heimildamönnum Financial Times. Til samanburðar má nefna að í heildina horfa notendur Facebook á einhverja 8 milljarða myndbanda á dag.

Þessar tölur eru sérstaklega sláandi vegna þess að í maí síðastliðnum var Snapchat með einhverja tvo milljarða daglegra myndbanda, sem þýðir að magn áhorfa hefur rétt rúmlega þrefaldast.


Mark Zuckerberg sér eflaust eftir því að hafa ekki getað klófest spjallforritlinginn árið 2013 þegar Facebook bauð 3 milljarða bandaríkjadala fyrir fyrirtækið. Evan Spiegel, stofnandi Snapchat, afþakkaði þá boðið í þeirri trú að forritlingurinn væri talsvert verðmætari en svo. Sú ákvörðun vakti furðu á þeim tíma, en með árunum verður ef til vill ljósara hvers vegna Spiegel hafði svo mikla trú á forritlingnum.