*

sunnudagur, 24. febrúar 2019
Innlent 24. nóvember 2009 08:39

Spyr hvort að rannsókn á Baldri sé pólitísk

Segir málareksturinn aðför að Baldri Guðlaugssyni og biður saksóknara að fella hann niður

Ritstjórn

Karl Axelsson, lögmaður Baldurs Guðlaugssonar, skrifar opið bréf til sérstaks saksóknara í Morgunblaðið í dag þar sem hann spyr hvort að rannsókn sölu Baldurs á hlutabréfum sínum í Landsbankanum 17. September í fyrra sé pólitísk.

Í greininni spyr Karl „hvers vegna er þá farið fram með þessum dæmalausa hætti gegn ráðuneytisstjóranum fyrrverandi og það á sama tíma og ekkert er sjáanlega aðhafst gagnvart þeim sem dönsuðu milljarðadansinn um íslenskt fjármálakerfi með þeim alþekktu afleiðingum sem staðið var frammi fyrir í október fyrra árs? Getur verið að verið sé að leggja stjórnvöldum lið við að losa sig við embættismann sem talinn er óæskilegur? Getur verið að þörfin fyrir að sýna þjóðinni skörungsskapinn hafi borið menn ofurliði? Baldur Guðlaugsson liggur sjálfsagt vel við höggi, tilvalið viðfangsefni í vinsældarkapphlaupinu, endafulltrúi kerfis og flokks, sem nú um stundir er mjög til vinsælda fallið að gera öðrum fremur ábyrgan fyrir hruni banka og eefnahagskreppu.“

Rannsókn byggir á gögnum frá hópi sem FME átti fulltrúa í

Í bréfi Karls kemur einnig fram að tilefni endurupptöku rannsóknar á máli Baldurs hafi verið upplýsingar sem fram hafi komið í fundargerðum og vinnugögnum samráðshóps um fjármálastöðugleika.  Baldur hafði setið í hópnum fyrir hönd fjármálaráðuneytisins. Áður hafði rannsókn Fjármálaeftirlitsins (FME) á Baldri einungis snúið að atburðum eftir 1. september 2008 og sérstaklega fundi sem hann sat með Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, 2. september það ár. FME átti fulltrúa í samráðshópi um fjármálastöðugleika. Stofnunin vísaði máli Baldurs Guðlaugssonar til sérstaks saksóknara fyrr á þessu ári eftir að hafa tekið rannsókn á málinu upp á nýjan leik. Það var gert á grundvelli nýrra upplýsinga úr fundargerðum og vinnugögnum samráðshópsins sem æði ladur og fulltrúi FME sátu í.

Segir málið aðför og vill láta fella það niður

Í niðurlagi bréfs Karls í Morgunblaðinu segir að „meðferð ákæruvalds má aldrei fela í sér tilraunastarfsemi. Ég lýk þessu bréfi með því að skora á þig ágæti Ólafur Hauksson [innsk. blaðam. sérstakur saksóknari] að sýna nú fram að menn ætli sér að standa í lappirnar, að grundvallarreglurnar séu þrátt fyrir allt hafnar yfir tíma og rúm og að þú fellir því þegar í stað niður hinar ólögmætu aðgerðir til aðfarar á hendur Baldri Guðlaugssyni.“