Umhverfisstofnun hefur tekið ákvörðun um að stöðva starfsemi United Silicon. Fyrirtækinu hefur verið kynnt sú ákvörðun með bréfi. Óheimilt er að endurræsa ofn verksmiðjunnar nema með skriflegri heimild frá Umhverfisstofnun að loknum fullnægjandi endurbótum og ítarlegu mati á þeim að því er kemur fram í tilkynningu frá Umhverfisstofnun.

Tilkynnt var um áform um að stöðva rekstur United Silicon 23. ágúst síðastliðinn. Rekstraraðila var veittur frestur til 30. ágúst til þess að skila inn athugasemdum við áform stofnunarinnar. United Silicon óskaði eftir viðbótarfresti til 6. september sem stofnunin hafnaði en veitti frest til 31. ágúst.

Kísilver United Silicon var gangsett þann 11. nóvember 2016. Frá upphafi rekstrar kísilversins hafa komið upp fjölmörg vandamál við mengunarvarnir sem hafa ekki enn sem komið er verið leyst. „Verulegur fjöldi kvartana hefur borist Umhverfisstofnun frá upphafi rekstrar og eru kvartanir vegna ólyktar umfangsmestar,“ segir í tilkynningunni frá Umhverfisstofnun.