Landsnet hefur ráðið Svandísi Hlín Karlsdóttur í starf viðskiptastjóra Landsnets þar sem hún mun stýra þróun á viðskiptaumhverfi raforku ásamt því að vera tengiliður nýrra viðskiptavina og helsti þjónustutengiliður núverandi viðskiptavina. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Svandís hefur unnið hjá Landsneti frá árinu 2015 í starfi sérfræðings í viðskiptaskilmálum. Áður starfaði hún sem fjármálasérfræðingur hjá Danone AB í Svíþjóð þar sem verksviðið var m.a. ábyrgð á fjárhagsáætlun, viðskiptaþróun og áhættugreiningu. Einnig hefur hún starfað sem fagstjóri efniskaupa hjá Mannviti verkfræðistofu.

Svandís lauk meistaraprófi í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands en lokaárið tók hún í skiptinámi við KTH Royal Institute of Technology í Stokkhólmi.

„Það eru spennandi tímar framundan hjá Landsneti og ég hlakka til að taka þátt í að þróa viðskiptumhverfi raforku enn frekar.  Við hjá Landsneti höfum m.a verið að vinna að breyttum verkferlum og leggjum mikla áherslu aukið gagnsæi og jafnræði meðal viðskiptavina“ segir Svandís Hlín.