Þrjú fyrirtæki skipta með sér markaðnum fyrir bifreiðaskoðanir, en þau eru Frumherji hf., Aðalskoðun hf. og Tékkland bifreiðaskoðun ehf. Félögin hafa öll birt ársreikninga fyrir árið 2016, sem geyma meðal annars upplýsingar um eignarhald félaganna.

Fyrrum eigandi Pennans á 25% hlut í Frumherja

Stærsta fyrirtækið á markaðnum, Frumherji, er í eigu SKR1 hf. (99,9%) og Tröllahvönn ehf. (0,1%). SKR1 er í eigu Tiberius ehf. Tiberius er í eigu Strontín ehf., FÓ eignarhald ehf., Lexía ehf. og KG eignarhald ehf. Strontín ehf. er alfarið í eigu Þórðar Hermanns Kolbeinssonar, en félagið var eini eigandi Tiberius árið 2015. Þórður er fyrrverandi framkvæmdastjóri DHL á Íslandi og einn af fyrrverandi eigendum Pennans. Hann var úrskurðaður gjaldþrota í september 2012 með kröfur upp á tæplega 350 milljónir á þrotabúi sínu. FÓ eignarhald er í eigu Fannars Ólafssonar. Lexía ehf. er í eigu Andra Gunnarssonar. Þá er KG eignarhald í eigu Kristjáns M. Grétarssonar.

SKR1 keypti Frumherja af eignarhaldsfélaginu Fergin, sem var í eigu Íslandsbanka (sem annaðist fjárhagslega endurskipulagningu Frumherja eftir að félagið lenti í skulda- og greiðsluvanda í kjölfar fjármálakreppunnar), Jóhanns Ásgeirs Baldurs, fyrrverandi forstjóra VÍS, og Orra Hlöðverssonar, framkvæmdastjóra Frumherja. Frumherji hafði áður verið í eigu eignarhaldsfélags í eigu Finns Ingólfssonar, Helga S. Guðmundssonar og Jóhanns Ásgeirs Baldurssonar, sem keypti fyrirtækið árið 2007.

Eigendaskipti hjá Aðalskoðun í fyrra

Aðalskoðun er í eigu Skjöldur og skoðun ehf. (89,91%), Aðalskoðunar hf. (10%) og Aðstoð & Öryggi ehf. (0,09%). Skjöldur og skoðun ehf. er móðurfélag Aðstoðar og Öryggis og er í eigu Ómars Þorgils Pálmasonar, framkvæmdastjóra Aðalskoðunar. Ómar keypti félagið í fyrra af fjölskyldum Jafets Ólafssonar, Egils Rafns Árnasonar og Kristjáns Gíslasonar.

Tékkland í eigu Alfa hf.

Tékkland bifreiðaskoðun er í eigu Bifreiðaskoðun Íslands ehf. (57%), Tékkland ehf. (38%) og Birgis Hákonarsonar (5%), framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Bifreiðaskoðun Íslands ehf. og Tékkland ehf. eru í eigu fjárfestingarfélagsins Alfa hf., sem á því 95% hlut í Tékklandi bifreiðaskoðun.

Alfa er að langmestu leyti í eigu fjölskyldu Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra. Samkvæmt ársreikningi Alfa fyrir árið 2015 var stærsti eigandi félagsins Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna. Meðal annarra eigenda Alfa í árslok 2015 voru: Guðríður Jónsdóttir, móðir Bjarna, Jón Benediktsson, bróðir Bjarna, Einar Sveinsson (í gegnum félagið P 126 ehf., sem er í eigu lúxemborgska félagsins Charamino Lux), föðurbróðir Bjarna, þrjú börn Einars Sveinssonar (Benedikt, Hrólfur og Ásta Sigríður), Jón Gunnsteinn Hjálmarsson, Guðmundur Ásgeirsson og Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra. Samkvæmt heimildum seldi Benedikt hlut sinn í Tékklandi áður en hann varð fjármálaráðherra.

Ekki hafa fengist svör frá fjármálaráðuneytinu varðandi það hvert bifreiðar í eigu ríkisins fara í skoðun.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .