*

miðvikudagur, 22. maí 2019
Innlent 8. mars 2019 11:01

„Þarna liggja nokkrir milljarðar“

Í ræðu atvinnuvegaráðherra á ársþingi Landsvirkjunar, var rætt um Þjóðarsjóð, orkupakka, sæstreng og Orkuna okkar.

Höskuldur Marselíusarson
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
Haraldur Guðjónsson

Iðnaðarráðherra áréttar að orkan tilheyri eignarrétti á landi og sé ekki þjóðareign líkt og fiskurinn í sjónum. Milljarðaverðmæti liggi í sölu umframorku um sæstreng, og orkupakkarnir hafi verið markaðspakkar.

Er þetta meðal þess sem fram kom í opnunarræðu Ársfundar Landsvirkjunar þar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar, fór yfir stöðu orkumála.

Í því samhengi nefndi hún frumvarp sem nú liggur fyrir alþingi um Þjóðarsjóð þangað sem ráðstafa eigi vaxandi arði af Landvirkjun, nú þegar hægist á framkvæmdum og endursamið hefur við flesta stórnotendur eins og kom fram í ávarpi forstjóra félagsins. „Ég styð heilshugar að við Íslendingar sýnum ráðdeild og fyrirhyggju með þessum hætti,“ sagði Þórdís Kolbrún. 

Í umfjöllun um aukna samkeppni í orkumálum á Íslandi sagði Þórdís Kolbrún að umræðan um þriðja orkupakkann hafi beint sjónum að því að fyrstu tveir pakkarnir hafi verið markaðspakkar sem komið hafi á frjálsri samkeppni á orkumarkaði. Í kjölfarið geti fyrirtæki farið í útboð með sína orkunotkun, sem og einstaklingar og heimili sem hafi þó minna nýtt sér það enn sem komið er. Hún sagði þó að bara möguleikinn á að skipta um notendur hafi mögulega haldið aftur af verðhækkunum. 

Jafnframt nefndi hún að Ísland hafi fengið undanþágu við innleiðingu fyrstu orkupakkanna um fullan aðskilnað framleiðslu og dreifingu á rafmagni, sem þó væri æskileg, og því væru viðræður nú hafnar um kaup ríkisins á eignarhlutum orkufyrirtækjanna í Landsneti. Sagðist hún vonast eftir því að þær verði vel á veg komnar í árslok. 

Í umfjöllun sinni um auðlindir landsins gagnrýndi hún þá sem berjast gegn þriðja orkupakkanum undir slagorðinu Orkan okkar. „Sumir segja auðlindina í eigu þjóðarinnar líkt og fiskurinn. En vatnsafl og jarðvarmi tilheyra eignarétti á landi, líkt og laxveiðiréttindi í ám. Ef Jón og Gunna eiga landið þá eiga þau orkuauðlindina,“ áréttaði Þórdís Kolbrún og sagði slagorðið lýsa ríkisvæðingu orkunnar. 

Þórdís Kolbrún benti á að ekki er hægt að selja nema versta vatnsnárið í virkjanabúskapnum, því ekki sé hægt að tryggja það sem væri umfram. Líkti hún þeirri orku sem þannig væri sóað við brottkast í veiðum úr sjó. „Árlegt brottkast á meðalári nemur tveimur teravattstundum, að verðmæti sex milljarða,“ sagði Þórdís Kolbrún og benti á að raforkusæstrengur kæmi í veg fyrir þetta því þá væri hægt að selja umframorkuna þegar hún væri til staðar. 

„Þarna liggja nokkrir milljarðar sem bíða eftir því að vera teknir upp úr gólfinu.“ Loks fór ráðherrann yfir aukinn áhuga erlendra aðila á að byggja upp vindorkuver á Íslandi, og sagði hún vinnu hafna í ráðuneytinu til að eyða óvissu um umgjörð þeirra. Einnig nefndi hún þá sérstöðu sem landið gæti skapað sér í ferðaþjónustu ef orkuskiptin yfir í vistvæna orku í samgöngum innanlands algerlega yrðu kláruð.

Nánar má lesa um málið í sérblaði Viðskiptablaðsins, Orku og iðnaði. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim