Útlit fyrir að um að 6% aukning verði á fjölda ferðamanna á þessu ári. Björgólfur Jóhannsson, þekkir ferðaþjónustuna vel. Í tímariti Frjálsrar verslunar, sem kom út á dögunum er hann í viðtali um ferðaþjónustuna og fleira.

Spurður hvernig hann sjái ferðaþjónustuna þróast á næstu árum svarar Björgólfur: „Þetta er stór spurning. Ég held að við eigum mjög góð tækifæri til að vera á pari við aukninguna á heimsvísu, sem er um 4,5% ári, eða jafnvel rétt fyrir ofan það. Ísland er í tísku og við þurfum að viðhalda því. Við eigum náttúruna ennþá tiltölulega ósnortna og við þurfum að passa upp á hana. Við eigum náttúruperlur, sem hafa mikið aðdráttarafl og síðan höfum við verið að byggja upp ýmiss konar afþreyingu fyrir ferðamenn. Í þeim efnum má nefna ísgöngin í Langjökli, Lava á Hvolsvelli, Þríhnúkagíg, hvalasöfnin, hvalaskoðunarferðirnar og náttúrusafnið sem komið er í Perluna, svo maður nefni eitthvað.

Mér finnst við hafa mjög margt til brunns að bera. Við megum aftur á móti ekki fókusa á massatúrisma heldur eigum að reyna að fá betur borgandi ferðamenn til landsins. Við höfum verið að bæta okkur í lúxusferðamennnsku, samanber þyrluskíðaferðirnar, Bláa lónið og nýja hótelið þar, Depla í Fljótum og fleira."

Me me me

„Ég gerði nú einhvern tímann þau mistök að kalla aldamótakynslóðina me me me kynslóðina,“ segir Björgólfur og hlær. „En án alls gríns þá verðum við vera meðvituð um áhugasvið þessarar kynslóðar. Hún leggur til dæmis áherslu á sjálfbærni og góða heilsu og við eigum endalaus tækifæri á þessum sviðum, bæði í heilsutengdri og sjálfbærri ferðaþjónustu, þar sem virðing er borin fyrir náttúru, umhverfi og menningu. Við þurfum að leggja rækt við þetta allt saman.“

Ferðaþjónustan getur verið hverful. Dæmi eru um að lönd hafi dottið úr tísku og ferðamannaiðnaðurinn hrunið. Fyrir því geta verið ýmsar ástæður.

„Með massatúrisma og litlu skipulagi getur náttúran drabbast niður sem síðan verður til þess að fólk hættir að heimsækja okkur. Of hátt verðlag getur líka orðið til þess að eyðileggja ferðaþjónustuna. Það eru ýmsir þættir sem geta ollið samdrætti en það góða er að þetta er allt saman dálítið mikið undir okkur komið. Við verðum að vera sívakandi.“

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að gerast áskrifandi með því að senda póst [email protected] .