Verktakafyrirtækið ÞG verk hefur eignast verslunar- og skrifstofuhúsnæðið við Urðarhvarf 8, sem gengið hefur undir  viðurnefninu „kreppuhöllin“. ÞG verk stóð upprunalega að byggingu hússins, sem hófst árið 2007. Framkvæmdir stöðvuðust í bankahruninu og hefur það staðið fokhelt í nærri áratug. Íslandsbanki eignaðist húsnæðið eftir skuldauppgjör við ÞG verk árið 2011. Byggingin er eitt stærsta skrifstofuhúsnæði landsins, um 14.500 fermetra, auk 9.000 fermetra bílakjallara.

Þorvaldur H. Gissurarson, forstjóri og eigandi ÞG Verks, segir að framkvæmdir séu þegar hafnar í húsinu. Þá séu viðræður við einn leigutaka langt komnar og viðræður við aðra leigutaka að fara af stað. „Við finnum fyrir áhuga. Sérstaklega fyrir stærra skrifstofuhúsnæði. Það eru ekki margir kostir fyrir stærri vinnustaði,“ segir hann.

Stefnt er að ljúka fyrri áfanga í mars og þá geti fyrstu leigutakarnir flutt inn. Síðari áfanga ljúki svo í júlí og þá verði húsið fullbúið. Þorvaldur gerir ráð fyrir að það kosti 3 til 3,5 milljarða króna að ljúka framkvæmdunum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .