Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis leggur til að hlutlæga ábyrgð á hraðasektum úr hraðamyndavélum verði ekki í umferðarlögum. Þetta er meðal breytinga sem gerð var á frumvarpi til nýrra umferðarlaga sem eru til meðferðar á þinginu.

Í frumvarpi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra var gert ráð fyrir því að skráður eigandi ökutækis myndi ávallt bera ábyrgð á sektinni nema sýnt væri fram á að bifreiðin hefði verið notuð í algjöru heimildarleysi. Samkvæmt núgildandi lögum ber ökumaður bifreiðarinnar ábyrgð á sektinni.

Í greinargerð sem fylgdi frumvarpinu var rakið að helsta ástæðan fyrir fyrirhugaðri breytingu væri aukinn fjöldi hraðasekta vegna ferðamanna á bílaleigubílum. Erfiðlega gengi að innheimta þær sektir en innheimtuhlutfallið er tæpur helmingur. Heildarskuld erlendra ferðamanna er rúmlega 100 milljónir króna.

Breytingunni var harðlega mótmælt af bílaleigum landsins enda hefði hún þýtt að sektirnar væru á ábyrgð þeirra. Erfiðlega myndi reynast að innheimta sektirnar af þeim sem leigja bifreiðirnar og því myndi þurfa að velta sektunum út í verðlagið. Hið sama myndi gilda um atvinnubílstjóra og bíla á rekstrarleigum.

„Erfitt væri fyrir bílaleigur að innheimta slíkar sektir hjá leigutökum eftir að bíl hefur verið skilað, m.a. vegna skilmála kortafyrirtækja. Þá gengi ákvæðið gegn umferðaröryggi þar sem ökumenn óskyldir eiganda bæru ekki ábyrgðina en með ákvæðinu væri dregið úr hvatanum fyrir ökumenn, sem ekki eru eigendur ökutækjanna, að fara eftir umferðarlögum,“ segir í nefndaráliti nefndarinnar.

Þá er bent á að hlutlæg refsiábyrgð sé undantekning í refsirétti og að mati nefndarinnar var einföldari meðferð við innheimtu sekta ekki næg ástæða til að víkja frá þeirri meginreglu.

Nefndarálitið og þær breytingar sem nefndin leggur til má lesa hér en þar er meðal annars vikið að notkun hjálma á reiðhjólum, ölvunarakstri og notkun nagladekkja.