Matvælafyrirtækið Garri flutti nýlega í nýtt húsnæði við Hádegismóa. Húsnæðið sem fyrirtækið flutti úr við Lyngháls var að sögn Magnús R. Magnússonar, framkvæmdastjóra Garra, löngu sprungið. Hann segir nýja húsið hafa verið hannað með umhverfissjónarmið að leiðarljósi. „Umsvifin hafa aukist það mikið að við þurftum að byggja nýtt vöruhús til að þjónusta viðskiptavini okkar,“ segir Magnús. Fyrirtækið fékk lóðinni við Hádegismóa úthlutað árið 2013.

„Mér var sagt að þetta hefði verið fyrsta lóð sem var úthlutað til atvinnustarfsemi í Reykjavík eftir hrun. Við lukum framkvæmdum um áramótin og fluttum rétt fyrir áramót. Við ákváðum í upphafi að horfa til framtíðar við byggingu hússins og vera í takt við þá umhverfisumræðu og ábyrgu stjórnun sem er lögð til við öll fyrirtæki í dag. Við völdum endurnýtanlegt byggingarefni í húsið og lýsing og hitun hefur það að leiðarljósi að vera umhverfisvæn og orkusparandi og hefur tekist vel til,“ segir Magnús. „Hljóðvist og öll aðstaða starfsmanna var auk þess höfð í fyrirrúmi þannig að fólkið sem hér starfar hafi allt til alls og sé sátt við sína vinnuaðstöðu. Það er mikið atriði í samkeppni um hæft starfsfólk. Vinnan er staður þar sem fólk ver stórum hluta af sínu lífi þannig að eins gott að því líði vel þar,“ segir Magnús.

Garri er almenningi kannski lítt kunnugt en þeim mun betur þekkt meðal fagmanna í matargerð. „Við erum ekki mikið á þessum almenna markaði. Við héldum upp á 45 ára afmæli fyrirtækisins í síðustu viku. Upp úr 1990 ákváðum við að einbeita okkur að veitingahúsum, mötuneytum og fleiru í þeim dúr. Alþjóðlegu vörumerkin sem við vorum með voru ekki nógu sterk til að keppast um hillupláss í smásöluverslun. Við ákváðum því að vera í liði með fagmönnunum og höfum núna vaxið í takt við fjölda ferðamanna,“ segir Magnús. „Við vorum ekkert skuldsett í hruninu, það hafði sennilega líka jákvæð áhrif og við gátum haldið okkar striki.“

Stærsti umhverfisvæni frystiklefi landsins

Frystiklefinn í nýju húsnæði Garra er að sögn langstærsti frystiklefi landsins sem er kældur með umhverfisvænum kælimiðli, kolsýru, en ekki freoni eða ammoníaki. „Það er djörf ákvörðun að gera þetta en þessi efni eru komin á bannlista innan Evrópusambandsins. Við erum líka svo heppin hér á Íslandi að ein besta uppspretta kolsýru er í Biskupstungum. Þar eru því strax unnin kolefnisspor.“ Þá eru allir lyftarar og vinnutæki sem notuð eru í vöruhúsinu með liþíum-rafhlöðum, sem að sögn Magnúsar eru bæði orkusparandi og endingarbetri og fljótlegra að hlaða þær.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .