Héraðsdómur Reykjavíkur sakfelldi þrjá af fjórum sakborningum í Marple málinu í dag. Hreiðar Már Sig­urðsson, fyrr­ver­andi for­stjóri Kaupþings í Lúx­em­borg, og Skúli Þor­valds­son voru hver um sig dæmdir í sex mánaða fangelsi. Magnús Guðmunds­son, fyrr­um for­stjóri Kaupþings, fékk þyngsta dóminn en hann var dæmd­ur í 18 mánaða fang­elsi. Héraðsdómur sýknaði Guðnýju Örnu Sveinsdóttur, fyrr­um fjár­mála­stjóri bank­ans, af öll­um ákær­um. Í málinu var ákært fyrir fjár­drátt, umboðssvik, pen­ingaþvætti og hylm­ingu.

Einnig voru gerð upptæk öll verðbréf, allur fjárfestingarsjóður og öll innstæða á hlaupareikningi, samtals 6.763.253 evrur, sem yfirvöld í Lúxemborg lögðu hald á undir rannsókn málsins inni á reikningi Marple Holding í Lúxemborg.

Héraðsdómur hafnaði kröfu um upptöku eigna ákærðu Skúla og hinna ákærðu félaga BM Trust, Holt Holding og Legatum Ltd., sem yfirvöld í Lúxemborg lögðu hald á undir rannsókn málsins í Lúxemborg.

Skaðabótakröfu Kaupþings gangvart Guðnýju var vísað frá dómi en viðurkennd gagnvart hinum sakfelldu, Hreiðari Má, Magnúsi og Skúla.

Heildar málsvarnarlaun í málinu voru rúmlega 62 milljónir, þar af greiðast tæplega 33 milljónir.