*

fimmtudagur, 19. júlí 2018
Innlent 25. október 2016 18:00

Töpuðu 450 milljónum

Greenqloud tapaði 450,9 milljónum íslenskra króna árið 2015. Tap félagsins hefur tvöfaldast milli ára.

Ritstjórn
Jón Þorgrímur Stefánsson, forstjóri Greenqloud

Tæknifyrirtækið Greenqloud tapaði 450,9 milljónum íslenskra króna árið 2015. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins. Rekstrartap nam rúmlega 376 milljónum, en félagið greiddi einnig rúmlega 76 milljónir í vaxtagjöld.

Eignir félagsins hafa nánast haldist óbreyttar milli ára, en þær námu 670,75 milljónum árið 2015. Fastafjármunir félagsins voru þar af 624,3 milljónir og veltufjármunir 46,5 milljónir.

Eigið fé árið 2014 nam rúmlega 115 milljónum. Árið 2015 var eigið féð aftur á móti neikvætt um 342 milljónir.

Skuldir félagsins hafa einnig tvöfaldast milli ára. Árið 2014 námu skuldirnar 552,5 milljónum, en þær námu rétt rúmri milljón í árslok 2015. Langtímaskuldir árið 2015 námu 939 milljónum og skammtímaskuldir 73,6 milljónum.

Handbært fé til rekstrar í árslok 2015 var 202 milljónir. Fjárfestingarhreyfingar námu tæpum 289 milljónum króna en fjármögnunarhreyfingar námu 381 milljón.

Handbært fé í árslok árið 2014 nam 138,6 milljónum. Handbært fé í árslok 2015 nam 28,9 milljónum.

Stikkorð: Afkoma Greenqloud Tap