Toyota á Íslandi hefur tilkynnt að fyrirtækið þurfi að innkalla 2.899 Yaris og 664 Hilux bifreiðar af árgerðum 2006 til 2011. Þetta kemur fram á vef Neytendastofu.

Ástæða innköllunarinnar er galli í öryggispúðum, gallinn felst í því að röng hleðsla í drifbúnaði öryggispúðanna getur rifið gat á drifbúnaðinn sjálfan sem veldur því að púðinn blæs ekki rétt út við árekstur og virkni hans verður ekki eins og til er ætlast.

Viðskiptablaðið greindi frá því í síðasta mánuði að þúsundir bíla keyrðu um götur Íslands með gallaða öryggispúða, en yfir 34 milljónir bíla um allan heim hafa verið innkallaðar vegna gallans. Átta dauðsföll í bifreiðum Honda hafa verið rakin beint til loftpúðana sem framleiddir eru af japanska framleiðandanum Takata.

Toyota á Íslandi tilkynnti í lok júli að innkalla þyrfti 5.450 bifreiðar og þá tilkynnti fyrirtækið innköllun á 4.300 bílum í maí. Samtals hefur fyrirtækið því tilkynnt innköllun á rúmlega 13.300 bifreiðum vegna gallans.

Eigendum verða send bréf vegna innköllunarinnar.