*

þriðjudagur, 26. mars 2019
Innlent 19. mars 2018 12:52

„Tryggingagjaldið varhugavert“

Framkvæmdastjóri SI segir orkuverð ekki lengur gefa Íslandi samkeppnisforskot, ofan á há laun, vexti og skattheimtu.

Ritstjórn
Sigurður Hannesson ræddi um samkeppnishæfni landsins á Iðnþingi SI fyrir helgi
Haraldur Guðjónsson

Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir að raforkuverð skapi ekki lengur Íslandi það samkeppnisforskot sem það gerði áður. Jafnframt séu laun, skattar og vextir í hærri kantinum hér á landi að því er Sigurður sagði í samtali við morgunútvarp RÚV í tilefni af nýafstöðnu Iðnþingi þar sem rætt var um samkeppnishæfni landsins.

Benti hann á nýlegar uppsagnir Ölgerðarinnar og Odda sem Viðskiptablaðið hefur sagt frá í þessu samhengi og segir hann íslenskan iðnað standa frammi fyrir köldum veruleika.

„Við sjáum það líka, varðandi hagkvæmni, að laun hér eru há í alþjóðlegum samanburði. Og framleiðnin er ekki í takti við það, sem þýðir að það er ekki verið að framleiða fyrir eins mikið og launin gefa til kynna,“ segir Sigurður og vísar í samkeppni íslensk iðnaðar við innflutning.

„Vextir eru háir hér á landi miðað við annars staðar. Og við sjáum það meðal annars að það þarf að setja innflutningshöft á fjármagn til þess að koma í veg fyrir að það streymi inn og sæki í þessa háu vexti. Þannig að það er verið að plástra kerfið einhvern veginn. 

Við sjáum líka að skattheimta er há hér á landi í alþjóðlegum samanburði, það er að segja skattheimta á fyrirtæki. Og þar er tryggingagjaldið kannski sérstaklega varhugavert vegna þess að það er lagt á launin, sem eru há fyrir. Og ofan á þetta allt saman bætist það að raforkuverð skapar ekki lengur það samkeppnisforskot sem það gerði.“