*

föstudagur, 24. maí 2019
Innlent 10. september 2017 12:25

Umrót hjá Högum

Róstusamt hefur verið hjá smásölurisanum Högum síðastliðna mánuði. Breytt samkeppnisumhverfi hefur knúið félagið til hagræðingar. Hagar hafa sent frá sér tvær afkomuvið­varanir á skömmum tíma og tekið högg á hlutabréfamarkaði.

Snorri Páll Gunnarsson
Meginstarfsemi Haga er á sviði matvöru, en félagið á tvær af stærstu smásölukeðjum landsins, Hagkaup og Bónus.
Haraldur Guðjónsson

Ferskir vindar blása nú um íslenska verslun. Erlendar verslunarkeðjur á borð við Costco og Hennes & Mauritz (H&M) hafa streymt til landsins á síðustu misserum, enda aðstæður til verslunarreksturs um margt hagstæðar. Hagvöxtur er kröftugur, einkaneysla mikil og kaupmáttur launa í hæstu hæðum. Ekkert lát virð­ist ætla að vera á þróuninni, en fleiri erlendar verslanakeðjur hafa augastað á Íslandi, svo sem Nespresso, Illums Bolighus, GAP og þýski verslunarrisinn Aldi. Umfang netverslunar hér á landi hefur einnig aukist verulega á síðustu árum. Þá er neysluhegðun og verðvitund íslenskra neytenda að breytast. Neytendur gera auknar kröfur um þjónustuupplifun og gæði og eru duglegri að stunda verðsamanburð. Markaðurinn er að verða skilvirkari, með aukinni samkeppni á framboðshlið og vaxandi verðnæmni neytenda á eftirspurnarhlið. Talað hefur verið um „nýjan veruleika“ á íslenskum smásölumarkaði.

Umræddar breytingar á smá­sölumarkaði eru stærsta áskorun sem íslensk verslunarfyrirtæki hafa nokkurn tímann staðið frammi fyrir. Innlendar verslanir þurfa að keppa við þessar alþjóð­legu verslanakeðjur um verð á ýmsum vöruflokkum sem og aðra þjónustu. Erlendu keðjurnar eru þó í mörgum tilfellum með margfalda landsframleiðslu Íslands og selja meðal annars vörur undir kostnaðarverði. Þær búa við allt önnur vaxtakjör og mun meiri stærðarhagkvæmni heldur en innlend fyrirtæki, sem hvetur til hagræðingar í rekstri.

Þróunin á smásölumarkaði hefur ekki síst verið áskorun fyrir stærsta verslunarfyrirtæki landsins, Haga. Hagar reka um 49 verslanir innan fimm smásölufyrirtækja og fjögur vöruhús. Meginstarfsemi Haga er á sviði matvöru, en félagið á tvær af stærstu smásölukeðjum landsins, Bónus og Hagkaup. Félagið var með í kringum 60% af veltu dagvörumarkaðarins árið 2014. Fé­lagið hefur einnig rekið sérvöruverslanir síðustu ár með mörgum af þekktustu lífsstíls- og tískuvörumerkjum landsins.

Í tilkynningu stjórnar Haga til Kauphallarinnar með birtingu fyrsta ársfjórðungs (mars til maí) undir lok júní viðurkenndi stjórn félagsins þennan nýja veruleika: „Samkeppnisumhverfi verslunar á Íslandi er að breytast … Breytt samkeppnisumhverfi hefur áhrif á veltu og markaðsstöðu félagsins.“

Hagar hafa gripið til ýmissa aðgerða undanfarna mánuði til að bregðast við breyttu samkeppnisumhverfi, svo sem með fækkun verslunarfermetra og samruna. Hagar standa þó frammi fyrir ýmsum áleitnum spurningum. Félagið, sem er að mestu í eigu íslenskra lífeyrissjóða, hefur tekið högg í Kauphöllinni frá opnun Costco í Kauptúni þann 23. maí síðastliðinn. Félagið hefur í tvígang sent frá sér afkomuviðvörun á skömmum tíma. Greiningaraðilar sem Viðskiptablaðið hefur rætt við hafa sagt að það sé ljóst að Hagar verði að halda áfram að hagræða í rekstri og bæta vöru- og þjónustuframboð sitt til að bregðast við aukinni samkeppni – líkt og stjórn félagsins hefur sjálf gefið til kynna. Óhjákvæmilega vakna spurningar um það hvernig framtíðarrekstri Haga verði háttað. Hver verður þeirra mótleikur við þeim breytingum sem eru að eiga sér stað á smásölumarkaði?

Tekið til í rekstrinum

Síðasta rekstrarár hjá Högum, sem náði frá 1. mars 2016 til 28. febrúar 2017, einkenndist af endurskipulagningu á rekstri félagsins. Leigðum fermetrum var fækkað um tæplega 20 þúsund, sem var nær helmingur alls verslunarrýmis félagsins, til að draga úr leigugjöldum. Nokkrum sérvöruverslunum í rekstri Haga var lokað, sérstaklega tískuvöruverslunum. Félagið hefur haldið áfram að fækka verslunarfermetrum það sem af er þessu ári til að lækka rekstrarkostnað enn frekar. Einnig hefur félagið náð hagstæðari kjörum í innkaupum hjá birgjum.

Til að mynda lokuðu Hagar matvöruhluta Hagkaups í Holtagörðum, Outlet á Korputorgi, Útilíf í Glæsibæ, Debenhams í Smáralind, Hagkaup á annarri hæð í Kringlunni auk Evans í Smáralind og Warehouse í Kringlunni. Þá var Hagkaup í Smáralind minnkuð um tæplega helming, úr 10.440 fermetrum í 5.600. Í febrúar 2016 höfðu Hagar einnig lokað tískuvöruverslun Karen Millen í Smáralind. Á yfirstandandi rekstrarári hafa Hagar lokað tískuvöruversluninni Topshop í Smáralind og Kringlunni, auk Dorothy Perkins í Smáralind. Eftir standa tvær verslanir Zöru, Karen Millen í Kringlunni og tvær verslanir Útilífs enn í rekstri Haga. Ljóst er að sviptingarnar á smásölumarkaði hafa knúið Haga til að draga úr áherslunni á sérvöru í rekstri félagsins.

Á móti hafa Hagar eignast nokkrar fasteignir, meðal annars Skeifuna 11. Félagið á samtals rúmlega 28 þúsund fermetra af fasteignum sem bókfærðar voru á 6,5 milljarða króna í lok febrú­ ar síðastliðinn. Það er núverandi stefna Haga að eignast fasteignir á hagstæðu verði sem nýtast í starfseminni.

Samhliða þessum aðgerðum hefur starfsmönnum Haga fækkað úr 2.327 í lok febrúar 2016 í 2.200. Fyrir utan verðhjöðnun á tekjuhlið glíma Hagar einnig við hækkandi kostnaðarhlið vegna hás húsnæðiskostnaðar og þenslu á vinnumarkaði.

Hagar hafa einnig reynt að styrkja samkeppnistöðu sína með sameiningum. Í nóvember á síð­ asta ári samþykktu Hagar að kaupa Lyfju af íslenska ríkinu á 6,7 milljarða króna. Lyfja er stærsta keðja apóteka og heilsuverslana á Íslandi. Í apríl var síðan undirritaður samningur um kaup Haga á Olís og fasteignafélaginu DGV ehf. Vænt kaupverð hlutafjár Olís og DGV er á bilinu 9,4 til 10,4 milljarðar króna. Hagar hafa einnig útvíkkað starfsemi sína með heildsölu á áfengi. Þess má geta að Costco í Kauptúni er í lyfjasölu, eldsneytissölu og heildsölu áfengis.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim