Gengið var frá samkomulagi um efni tvísköttunarsamnings milli Íslands og Japan á fundi í Tókýó nýverið að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu .

Í samningsdrögunum eru meðal annars ákvæði sem ætlað er að varpa ljósi á skattlagningu beggja ríkja og hvernig eigi að hindra alþjóðalega tvísköttun og koma í veg fyrir skattsvik og skattaundanskot. Einnig er gert ráð fyrir að samningurinn stuðli að frekari gagnkvæmum fjárfestingum og efnahagslegum samskiptum milli ríkjanna.

Undirritun samningsins mun fara fram þegar gengið hefur verið frá lokatexta hans og nauðsynlegar ráðstafanir hafa verið gerðar af hálfu ríkisstjórna í hvoru ríki fyrir sig. Að því frágengnu mun samningurinn taka gildi að loknu fullgildingarferli samkvæmt lögum ríkjanna.

Fyrir íslensku samninganefndinni fer Maríanna Jónasdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu skattamála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, en auk hennar eiga sæti í nefndinni Ása Ögmundsdóttir lögfræðingur í ráðuneytinu og Guðrún Jenný Jónsdóttir, sviðstjóri á alþjóðasviði ríkisskattstjóra.