Færa má rök fyrir því að fjármagnshöftin hafi stuðlað að hækkun skuldabréfaverðs og lækkunar á ávöxtunarkröfu. Þrátt fyrir almennt afnám fjármagnshafta eru enn til staðar höft á innflæði fjármagns á skuldabréfamarkað, sem dregur mögulega úr veltu. Ríkisskuldabréf og ríkistryggðir pappírar eru í dag undirstaðan á markaðnum, en væntingar eru uppi um að markaður með fyrirtækjaskuldabréf muni byggjast upp á næstu árum.

Einkageirinn hefur legið í dvala

Með góðu efnahagsástandi, batnandi rekstri ríkissjóðs og lækkun skulda undanfarin ár hefur fjármögnunarþörf ríkisins farið minnkandi og nýjar útgáfur ríkissjóðs því verið litlar. Þá hafa útgáfur einkaaðila að mestu leyti legið niðri. Almennt hefur framboðsaukning á skuldabréfamarkaði verið takmörkuð frá árinu 2011.

„Fyrirtækjaskuldabréfamarkaðurinn hefur átt erfitt uppdráttar frá hruni. Undanfarin ár hefur hann aðallega verið byggður upp af sértryggðum skuldabréfum bankanna og fasteignatryggðum bréfum fasteignafélaganna, en hefðbundin atvinnufyrirtæki hafa lítið sem ekkert látið sjá sig,“ segir Magnús Harðarson, forstöðumaður viðskiptasviðs Kauphallarinnar.

Magnús nefnir nokkrar ástæður fyrir þessu. „Það hefur vantað traust á þennan markað eftir að hann fór langleiðina með að þurrkast út í hruninu. Fjárfestar hafa viljað meira öryggi. Hvað bankana varðar voru þeir svo vel fjármagnaðir eftir hrun að þörfin fyrir útgáfur hefur verið takmörkuð. Svo er það tiltölulega nýkomið að fyrirtæki standi á svo föstum grunni eftir hrun að þau geti skráð sig á skuldabréfamarkaðinn, enda er góður rekstur skilyrði fyrir lántöku á hagstæðum kjörum.“

Bjögunaráhrif fjármagnshafta

Þegar fjármagnshöft voru sett á hér á landi haustið 2008 læstist mikið fjármagn inni í hagkerfinu. Peningamagn í umferð hafði fjórfaldast á árunum 2004–2008. Erlendir aðilar með aflandskrónur festust á Íslandi. Fjárfestingarkostum innlendra aðila fækkaði verulega, en þar að auki hafði innlendur hlutabréfamarkaður hafði þurrkast út.

Þessar aðstæður sköpuðu líklega verulegan kaupþrýsting á skuldabréfamarkaði. Samhliða aukinni eftirspurn dró úr fjármögnunarþörf ríkissjóðs og útgáfum eftir því sem leið á haftatímabilið. Ávöxtunarkrafa á skuldabréfamarkaði hefur lækkað nær stöðugt frá setningu gjaldeyrishafta. Þar með hefur verð bréfa og markaðsvirði hækkað.

Þess má geta að ávöxtun í skuldabréfum hefur verið minni en í hlutabréfum undanfarin ár, enda hefur flökt verið minna á skuldabréfamarkaði. Verðtryggð bréf hafa að jafnaði gefið meira af sér heldur en ríkisskuldabréf og óverðtryggð bréf frá hruni.

Á haftatímabilinu voru stærstu eigendur skráðra skuldabréfa íslenskir lífeyrissjóðir og erlendir aflandskrónueigendur. Lífeyrissjóðirnir hafa helst sótt í löng verðtryggð bréf en erlendir aðilar í stutt óverðtryggð bréf. Í dag eru lífeyrissjóðirnir með yfir þriðjung af markaðnum en hafa í auknum mæli fært sig yfir í aðrar eignir. Dregið hefur úr eignarhaldi erlendra aðila eftir því sem aflandskrónur hafa verið losaðar.

Þá hefur ávöxtunarkrafa skuldabréfa ekki fylgt stýrivaxtabreytingum Seðlabankans innan hafta. Sérstaklega virðast stýrivaxtaákvarðanir Seðlabankans ekki hafa skilað sér til langtímaskuldabréfa. Má því færa rök fyrir því að fjármagnshöftin hafi torveldað miðlun vaxtabreytinga Seðlabankans út í vaxtarófið, ásamt því að bjaga verðbólguvæntingar.

Mun leita í jafnvægi

Fjármagnshöft voru afnumin að fullu á einstaklinga, fyrirtæki og lífeyrissjóði þann 14. mars síðastliðinn. Magnús segist þó ekki búast við miklum sviptingum á skuldabréfamarkaði miðað við núverandi aðstæður.

„Það eru enn höft á skuldabréfamarkaðnum. Bindingarskylda Seðlabankans hefur átt sinn þátt í að draga úr veltu og fæla erlenda aðila frá markaðnum. Þeir erlendu aðilar sem við höfum rætt við eru varla í stellingum til að fjárfesta í skuldabréfum fyrr en breyting verður á þessu,“ segir Magnús. „Ég er þó mjög bjartsýnn á það að bindingarskyldunni verði breytt á komandi misserum. Sendinefnd AGS benti til dæmis á um daginn að hún væri óþarfi í augnablikinu, þó það væri æskilegt að hafa þetta tæki til staðar,“ segir Magnús.

Magnús segist gera fastlega ráð fyrir því að markaður með fyrirtækjaskuldabréf muni byggjast upp á næstu árum. „Við höfum fundið fyrir auknum áhuga fyrirtækja til að gefa út skuldabréf og búumst við því að það taki heldur við sér.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .