Ríkisstjórnin hefur hafnað því að tryggingagjald verði lækkað. Þessi stefna stjórnvalda og gerðardómur sem féll síðasta sumar í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga og BHM gæti á endanum leitt til upplausnar á vinnumarkaði enn á ný. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að hið opinbera hafi sett launastefnu almenna vinnumarkaðarins í fullkomið uppnám.

Þann 29. maí voru samningar á almennum vinnumarkaði undirritaðir. Samningurinn hvílir á þremur meginforsendum. Í fyrsta lagi að kaupmáttur launa aukist á samningstímanum. Í öðru lagi að launastefna hans verði stefnumarkandi fyrir aðra kjarasamningagerð og í þriðja lagi að fullar efndir verði á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við samninginn. Þessar forsendur koma til endurskoðunar núna í febrúar og er útlit fyrir að þær tveir síðastnefndu séu brostnar. Með gerðardómi í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga og BHM í lok sumars varð ljóst að launastefnan sem mörkuð var á almenna markaðnum er brostin. Þá hefur ríkisstjórnin enn sem komið er ekki efnt loforð um úrbætur í húsnæðismálum.

Gjörbreytt staða

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, segir að viðbrögð stjórnvalda valdi miklum vonbrigðum.

„Það var yfirlýst stefna stjórnarinnar, þegar hún kom til valda í maí 2013, að leggja áherslu á skattalækkanir og ítrekað talað um mikilvægi þess að lækka tryggingagjaldið," segir Þorsteinn. „Gjaldið var hækkað á sínum tíma til að koma til móts við aukið atvinnuleysi eftir hrun. Nú hefur það atvinnuleysi meira og minna gengið til baka en gjaldið ekki lækkað að neinu ráði síðan. Það er einfaldlega verið að festa tryggingjaldið í sessi.

Fjármálaráðherra hefur réttilega bent á að í tengslum við kjarasamninga síðasta vor hafi verið verið lögð áhersla á tekjuskattslækkun til þess að reyna að jafna muninn sem var milli hækkunar lægstu launa og millitekna. Þá sagði hann að ekki væri víst að svigrúm væri til lækkunar hvoru tveggja — tekjuskatts og tryggingagjalds. Við höfum hins bent á að tekjuhorfur ríkissjóðs hafa batnað verulega síðan í vor. Síðan breyttist staðan algjörlega síðasta sumar þegar gerðardómur í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga og BHM féll. Með þeim dómi varð ljóst að sú launastefna sem mörkuð hafði verið á almennum vinnumarkaði var fallin og kjarasamningar þar með í uppnámi."

Fullkomið uppnám

„Í byrjun árs 2014 sömdum við um 3,3% hækkun launa, það átti að vera að upptakturinn að breyttum vinnubrögðum á vinnumarkaði og árangurinn lét ekki á sér standa," segir Þorsteinn. „Verðbólga gekk mjög hratt niður og vextir byrjuðu að lækka en þessi launastefna sprakk þegar hið opinbera samdi við kennara og lækna seinna það sama ár um 30% hækkun á þremur árum. Það er einmitt þetta sem gerðardómurinn lítur til í úrskurði sínum í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga og BHM síðastliðið sumar. Þrátt fyrir að kjarasamningar á almennum vinnumarkaði síðasta vor hafi verið upp á 18,5% á þremur árum þá leit dómurinn fram hjá því og vísaði í sínum úrskurði til þess að stórir hópar opinberra starfsmanna hefðu fengið 30% hækkun og skilar sambærilegri niðurstöðu til hjúkrunarfræðinga og BHM.

Hið opinbera, bæði ríki og sveitarfélag, hafa því sett launastefnu almenna vinnumarkaðarins í fullkomið uppnám," segir Þorsteinn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .