Nú á dögunum greindi upplýsingatæknifyrirtækið Origo frá því að félagið hefði selt 55% hlut í dótturfélaginu Tempo til bandaríska sjóðsins Diversis á 34,5 milljónir dollara, sem nemur tæplega 4,3 milljörðum króna. Finnur Oddsson, forstjóri Origo, er ánægður með söluna, sem hann segir mikilvægt skref fyrir bæði Tempo og Origo.

„Söluferlið hafði nokkurn aðdraganda en tók kannski heldur lengri tíma en við gerðum ráð fyrir, aðallega vegna þess að aðili sem við völdum til samstarfs í byrjun þessa árs passaði okkur ekki þegar á hólminn var komið. Það má því segja að við höfum þurft að byrja upp á nýtt á vormánuðum, að raða aftur upp áhugasömum aðilum og velja þann sem við töldum heppilegastan. Þar sem þessi vinna lenti að hluta inni í sumarleyfum, sem alltaf tefur, þá erum við mjög sátt við að hafa lokið þessu ferli núna í nóvember, sérstaklega í ljósi þess að samstarfsaðilinn, Diversis, er vel í stakk búinn til að styðja við Tempo á næstu misserum og árum.

Markmiðin sem við höfum frá upphafi sett okkur með vali á samstarfsaðila voru í meginatriðum tvö. Eðli máls samkvæmt þá höfum við gert kröfu um verðmat á Tempo sem endurspeglar stöðu og framtíðarmöguleika fyrirtækisins. Hitt sem skiptir jafnvel meira máli er áhersla á að fá til samstarfs aðila með þekkingu sem við höfum ekki og teljum nauðsynlega til þess að styðja Tempo til þess vaxtar sem við metum að sé mögulegur. Diversis Capital er lítið en vaxandi fyrirtæki sem hentar okkur vel af ýmsum ástæðum. Þau eru ekki of lítil og ekki of stór, sem tryggir annars vegar að þau hafa þekkingu sem hæfir verkefnum af þessu tagi og stærðin á verkefninu tryggir að það fær fullkomna athygli þeirra. Tempo er því sinnt bæði af stjórnendum Diversis og svokölluðum „operating partners", sem eru ráðgefandi sérfræðingar á sviði rekstrar hugbúnaðarfyrirtækja og styðja sem slíkir við fjárfestingar sjóðsins. Það eru í rauninni þessir sérfræðingar sem löðuðu okkur einna helst að Diversis, því við teljum að með þeirra reynslu og þekkingu getum við fleytt Tempo mun hraðar áfram en annars væri. Þessu til viðbótar má nefna að Diversis er fyrirtæki í uppbyggingarfasa og er nú að taka mikilvæg skref á þeirri vegferð.  Fyrstu fjárfestingarnar skipta þar verulegu máli, fá mikla athygli fjárfesta og verða því einfaldlega að heppnast vel.  Það er því ánægjulegt að Tempo verður fyrsta fjárfesting í nýjum sjóði Diversis. Þannig að í stuttu máli þá er verðmatið á Tempo ásættanlegt á þessum tímapunkti, en það skiptir jafnvel meira máli að við erum þess fullviss að með reynslu Diversis í farteskinu, þá muni verðmætasköpun Tempo til framtíðar verða hraðari en ella."

Sjá mikil tækifæri í Tempo

„Tempo er á mjög góðum stað í dag og ekki annað hægt en að dást að árangri Tempo-teymisins undir forystu Ágústs Einarssonar, framkvæmdastjóra.  Árlegur tekjuvöxtur hefur talið í tugum prósenta í mörg ár, árstekjur eru nú um 20 milljónir dollara, viðskiptavinir fleiri en 12.000 og félagið veitir nú um 100 manns skemmtilega og verðmæta vinnu. Þetta er ástæðan fyrir því að Diversis, og raunar margir fleiri, sýndu áhuga á fyrirtækinu og tækifærinu sem í því felst .

Tempo býr til hugbúnað sem hjálpar til við skráningu á vinnutíma, skipulagningu vinnu og áætlunargerð, einkum í tengslum hugbúnaðarþróun og ýmiskonar þjónustustarfsemi.  Það sem gerir Tempo áhugavert til frekari fjárfestingar er að markaður fyrir lausnir félagsins er bæði afar stór og ört vaxandi, en fyrirtækið snertir í dag aðeins brotabrot þess markaðar. Vaxtartækifærin eru því veruleg og við teljum mjög mikilvægt fyrir hluthafa Origo að taka áfram þátt í vegferð Tempo sem stór hluthafi. Við erum þó svolítið að færa okkur úr bílstjórasætinu yfir í farþegasætið og láta öðrum og reyndari ökumönnum eftir að stýra Tempo. Við munum engu að síður styðja áfram við félagið með ráðum og dáð, skipa stjórnarmenn og verðum almennt mjög áhugasöm um hvert förinni er heitið. Um leið og við teljum það mikið hagsmunamál fyrir hluthafa í Origo að við eigum áfram í Tempo, þá skiptir einnig máli að með því að selja nú hlut erum við að draga úr áhættu Origo af uppbyggingu sem er í eðli sínu áhættusöm. Það að geta innleyst ávinning af uppbyggingu síðustu ára er jákvætt fyrir Tempo, Origo og hluthafa.

Það er einnig ánægjulegt hvernig þessi viðskipti sýna okkur enn og aftur hvað hægt er að skapa mikil verðmæti á grundvelli þekkingar. Stjórnvöld hafa sýnt starfsemi af þessu tagi aukinn áhuga undanfarin misseri, sem er vel, meðal annars með auknum stuðningi við rannsóknir og þróunarstarf.  Þar hafa verið stigin mikilvæg skref í rétta átt, nauðsynleg til að þekkingartengdri verðmætasköpun vaxi áfram fiskur um hrygg á Íslandi.

Með sölu á þessum stóra hlut til Diversis í síðustu viku er virði Tempo áþreifanlega staðfest og okkur telst til að félagið sé líklega þriðja verðmætasta hugbúnaðarfyrirtæki Íslandssögunnar, a.m.k. af þeim sem hafa fengið staðfestan verðmiða með  sölu á verulegum hlut. Við erum þarna í góðum félagsskap fyrirtækja eins og CCP, Nextcode, Betware, GreenQloud og Bókunar og svo eru fjöldamörg önnur glæsileg fyrirtæki á svipaðri vegferð, Guide to Iceland, Meniga og Nox Medical, svo einhver séu nefnd. Þetta eru dýrmæt fyrirtæki sem skapa áhugaverð störf og óhætt að segja að starfsemi fyrirtækja af þessu tagi hafi mjög góð samfélagsog efnahagsleg áhrif.  Það er því brýnt að hlúð sé að atvinnustarfsemi af þessu tagi eins og kostur er," segir Finnur.

Miklir vaxtarmöguleikar

Allt frá stofnun Tempo fyrir áratug síðan hefur vöxtur fyrirtækisins verið mikill. Spurður um hvort hann telji að salan á 55% hlut í félaginu muni ýta undir enn frekari vöxt þess segir Finnur að hann telji að svo sé.

„Fyrirtækið hefur vaxið um tugi prósenta á milli ára allt frá stofnun og við teljum að þessi vöxtur geti haldið áfram. Kaup Diversis á hlut í Tempo staðfesta að fleiri eru þeirrar skoðunar. Í dag er Tempo eingöngu aðgengilegt fyrir afmarkaðan hóp viðskiptavina, þ.e. þá sem nota Jira frá Atlassian, á bilinu 60-80 þúsund viðskiptavini. Markaðshlutdeild Tempo í þessu mengi er ágæt, en það eru til fjölmargar aðrar vinsælar skýjalausnir þar sem viðskiptavinir hefðu hag af því að geta notað Tempo á sama hátt og viðskiptavinir Atlassian sem nota Jira. Þar sem við höfum ríflega 12.000 staðfestingar á því að Tempo virkar, að lausnin er góð og gerir það sem við lofum, þá getum við verið nokkuð viss um að lausnin mun virka annars staðar líka, t.d. fyrir Zendesk eða Github, svo einhver séu nefnd. Það að taka Tempo lausnina og færa hana yfir í annað vistkerfi, helst með lágmarks tilkostnaði, gefur tækifæri á að ná inn á mun stærri markaði og eru vaxtarmöguleikarnir í samræmi við það.

Viðtalið við Finn í heild sinni má nálgast í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .