Hlutabréf í Volkswagen hafa haldið áfram að falla í dag eftir ásakanir um að þeir hafi sett hugbúnað í díselbíla sem var ætlað að blekka útblástursmæla. Hlutabréf í þýska bílarisanum lækkuðu sem nemur 19,82% í dag og hafa fallið um 34% frá því að upp komst um málið.

Hugbúnaðurinn var hannaður til að nema hvenær verið var að mæla útblásturinn og gat minnkað útblástur skaðlegra efna á meðan á mælingu stóð.

Framkvæmdastjóri Volkswagen, Martin Winterkorn hefur formlega beðist afsökunar á málinu en dagblaðið Tagesspeiegel greinir frá orðrómi um að hann verði látinn stíga til hliðar fyrir vikulok og að líklegur arftaki hans sé Matthias Mueller, framkvæmdastjóri Porsche. Volkswagen hefur þó hafnað þeim orðrómi.

Fyrirtækið hefur þegar tekið til hliðar 6,5 milljarða evra vegna innköllunar bifreiða og sekta sem það býst við að þurfa að greiða, auk þess sem markaðsverðmæti fyrirtækisins er talið hafa lækkað um allt að 25 milljarða evra á síðustu tveimur dögum.