Fyrir skömmu gaf Orkustofnun út raforkuspá sem nær til ársins 2050. Þar kom meðal annars fram að afhending orku frá dreifikerfi muni aukast um 10% fram til 2020. Alls mun afhending á orku aukast um 91% fram að árinu 2050 að dreifitöpum meðtöldum. Að mati Orkustofnunar verður árleg aukning notkunar að meðaltali 1,9% næstu 34 árin. Spáin er byggð á forsendum um mannfjölda, fjölda heimila, landsframleiðslu og framleiðslu einstakra atvinnugreina.

Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, segir í samtali við Viðskiptablaðið að hann telji spána lágmark. „Ég held að vöxturinn verði ekki minni en það sem er gert ráð fyrir í almennri notkun. Auðvitað fer þetta eftir efnahagslífinu, aukningin hefur verið meiri undanfarin ár, en hún var minni fyrst eftir hrun. Það hefur verið þröngt um orku undanfarið vegna þess að samhliða mikilli uppbyggingu á síðustu árum hefur verið lítil aukning á framleiðslu,“ segir hann.

Nauðsynlegt að hugsa fram í tímann

Forstjóri HS Orku segir að það þurfi að setja þetta í samhengi. „Ef við ætlum að halda áfram að þjóna samfélaginu með jarðvarma og vatnsafli, þá taka þau verkefni alltaf mjög langan tíma í undirbúningi og framkvæmdum,“ segir Ásgeir. Hann segir að verkefnin taki á bilinu 10 til 15 ár og því þurfi að hugsa vel fram í tímann til að hafa tiltekið magn af orku til reiðu. „Þess vegna verðum við að vita í dag hvaðan rafmagnið á að koma sem við ætlum að nota árið 2030,“ bætir hann við.

Þegar Ásgeir er spurður út í stöðuna hvað varðar þau verkefni sem eru í nýtingarflokki núna segir hann ástandið þokkalegt.

„Það er þannig að öll þessi verkefni eru unnin eftir þeim reglum sem samfélagið hefur sett, sem við köllum stundum í daglegu tali leikreglur lýðræðisins. Það er kannski búið að fara í gegnum umhverfismat og haldnir hafa verið kynningarfundir, sem fáir ef einhverjir mæta á. Síðan hefjast umræður í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum, gjarnan mótbárum, þegar búið er að fara í gegnum þetta lögboðna ferli. Þetta á jafnt við um orkuframleiðsluverkefni og orkuflutningsverkefni. Þetta er frekar þungt í vöfum og erfitt er að koma verkefnum áfram, en þau fara bara eftir leikreglum kerfisins,“ segir Ásgeir.

Vantar orku til gagnavera

„Það virkjar enginn bara til þess að virkja. Það virkjar enginn nema það sé þörf fyrir orkuna sem er framleidd,“ segir forstjórinn. Hann spyr næst hvar hægt sé að fá orku sem við eigum að nota í almenna notkun í framtíðinni.

„Það er enginn að fara að byggja álver í þessu landi. Kísiliðnaður er í uppbyggingu, þau verkefni eru ekki öll búin að fá alla þá orku sem þau hefðu kosið. Það hefur á undanförnum misserum verið vöntun á orku, til dæmis til gagnavera, þau vilja kaupa meiri orku sem er ekki til. Oft á tíðum er erfitt að útvega orku til millistórra notenda sem vilja bæta við sig, vegna þess að það er svo lítið á lausu, jafnvel ekki neitt,“ bætir hann við. Skortur á framboði leiðir enn fremur til hækkunar á orkuverði.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .