„Ég held að mörgum hljóti að vera mjög létt að vinstristjórnarsamkrullið sé út af borðinu,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra í viðtali við Morgunblaðið eftir að fréttist að slitnað hefði upp úr stjórnarmyndunarviðræðum fimm flokka vinstra megin við flokk hans.

Strandaði á skattamálunum

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar og Þorsteinn Víglundsson, þingmaður flokksins, sögðu báðir að skattamálin væru meðal þess sem strandað hefði á í viðræðunum. Þeim hefði ekki hugnast áherslur á stórfelldar skattahækkanir.

Birgitta Jónsdóttir hjá Pírötum sagðist þó hafa viljað sjá einhverjar kröfur frá Viðreisn áður en flokkurinn sleit viðræðunum, en engin gögn um þær hefðu borist inn á fund formannanna.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, er enn með stjórnarmyndunarumboðið, en hún hafði ekki gert það upp við sig í gærkvöldi hvort hún hygðist skila því til forseta Íslands.

„Eftir mjög góða vinnu sem yfir 30 manns hafa komið að liggur fyrir að ekki allir flokkar að minnsta kosti eru með næga sannfæringu fyrir því að þetta gangi,“ sagði Katrín.