Sagt var frá því, ekki fullkomlega óvænt, að Morgundagur, útgáfufélag Fréttatímans sáluga, hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta og að skiptafundur verði haldinn í haust. Ekki er líklegt að mikið fáist upp í kröfur, en þær eru sagðar á þriðja hundrað milljóna króna. Stærstu kröfurnar munu vera lán stórra hluthafa og stjórnenda til útgáfunnar.

Hins vegar mun útgáfufélagið skulda starfsmönnum ríflega fimm milljónir króna í laun og um 20 milljónir króna í launatengd gjöld. Við það bætast svo vangoldnar verktakagreiðslur til lausamanna við Fréttatímann og eins munu lífeyrisgreiðslur starfsmanna hafa verið í vanskilum frá áramótum.

Ekki kæmi á óvart þó fleiri lík fyndust í lestinni, en við þurfum að bíða í nokkra mánuði enn eftir að það komi í ljós.

***

Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál. Ekki aðeins fyrir einstaka starfsmenn og verktaka, þó þeirra tjón sé sjálfsagt sárast, heldur vekur það upp spurningar um hvort stjórnendur blaðsins hafi brugðist rétt og tímanlega við nöturlegum staðreyndum um reksturinn.

Það er erfitt að trúa því að þær hafi ekki orðið þeim ljósar fyrr en allt var komið í óefni, rimlagjöldin í uppnámi, starfsfólkið snuðað um launin og samt talið á að vinna aðeins lengur. Og það á sama tíma og yfir stóðu einhverjar furðulegar æfingar um aðskilnað rekstrareininga, ákall um styrki frá almenningi og ámóta krókódílar.

Þar að baki þarf ekki að búa illur ásetningur; gáleysi og örvænting kemur oft við sögu síðasta spölinn í rekstri dauðvona fyrirtækja.

***

En svo má spyrja hvort rekstraráformin hafi ekki einfaldlega verið einstaklega hæpin og það hefði mönnum átt að vera ljóst miklu fyrr hvert stefndi. Nánast frá fyrsta degi.

Rekstur Fréttatímans var frá upphafi fremur þröngur, en gekk meðan menn héldu sig við upphaflegu formúluna, með lítilli yfirbyggingu, ódýrum efniskaupum og harki. Þegar nýir eigendur komu hins vegar að rekstrinum, fjölguðu dýrum stjórnendum, juku útgáfutíðni og vildu víst færa út kvíarnar á bæði ljósvaka og vef, var öllum ljóst að kostnaðurinn myndi aukast verulega. Og eins að fyrirtækið gengi ekki nema tekjur þess myndu taka að aukast og það verulega, ættu þær að standa undir tvöfaldri útgáfu, tvöfaldri prentun og pappírskostnaði, tvöfaldri dreifingu.

***

Engin merki voru um að það gengi eftir eða kynni að ganga eftir, eins og var auðvelt að sjá með því að telja út auglýsingarnar. Auglýsingamarkaðurinn er ekki ótakmörkuð auðlind og þó Fréttatíminn væri sæmilega lesið helgarblað, var ekkert gefið um að það næði með sama hætti til lesenda í miðri viku.

Enn síður þegar horft er til þess að ritstjórnaráherslurnar fóru af hinum breiða meðalvegi og nokkuð út á jaðarinn. Það stríðir gegn lögmáli því sem útgefandinn og ritstjórinn Gunnar Smári Egilsson lýsti í fyrri vist hjá Fréttablaðinu. Þá sagði hann að fríblöð væru gestir á heimilum lesenda sinna og því yrðu þau að gæta hæversku og hófstillingar. Fréttatíminn breyttist hins vegar úr rólyndum helgargesti í fremur kreddufullan og háværan trúboða.

Það getur gengið fyrir afmarkaðan lesendahóp trúsystkina, en að bera það á borð í aldreifingu er varla nema fyrir Messías sjálfan.

***

Svo það er von að menn spyrji hvernig þetta gat farið svona fullkomlega út um þúfur. Hvernig Fréttatíminn í sínum tiltölulega föstu og tíðindalausum skorðum umbreyttist á örskömmum tíma og fór lóðbeint í gjaldþrot á einu ári. Og hvernig það gat komið nokkrum hlutaðeigandi á óvart.

Það er skiljanlegt þegar slíkt hendir byrjendur eða afglapa, en þarna stóðu þaulvanir menn, að fyrirtækinu, bæði eigendur, útgefendur, ritstjórar og framkvæmdastjóri. Hoknir af reynslu, bæði á sviði fjölmiðlunar og annars fyrirtækjarekstrar. Þeir geta trauðla borið við þekkingarleysi. Nema þeir hafi verið duldir því hvernig komið var eða ekki rækt eftirlitsskyldu sína.

Hvernig sem í því liggur blasir við að þarna þarf frekari rannsóknar við. Svarið þarf ekki að vera saknæmt, en fréttnæmt verður það!

***

Á forsíðu Morgunblaðsins í gær var vísað til umfjöllunar inni í blaði: „Guðni Ágústsson segir frá kristnitökunni“.

Það voru veruleg vonbrigði þegar lesandinn komst að því að ekki var um endurminningar að ræða.