Eftir átta góð ár með uppgang ferðaþjónustunnar í fararbroddi er samdráttur framundan . Loðnan er horfin, fréttir af uppsögnum berast reglulega, ferðamönnum fækkar og bæði flugfélögin glíma við vanda. Það birtist örlítil vonarglæta um að höggið yrði minna en á horfðist þegar spá Isavia leit dagsins í lok janúar en sú vonarglæta hvarf eins og dögg fyrir sólu nokkrum dögum síðar þegar fyrstu farþegatölur ársins birtust.

Seðlabankinn og Hagstofan hafa fært niður sínar hagvaxtarspár einkum vegna stöðu ferðaþjónustunnar; minni hagvexti hefur ekki verið spáð frá árinu 2012 og leiðrétt fyrir fólksfjölgun verður samdráttur á þessu ári.

Innan verkalýðshreyfingarinnar eru aðilar sem horfa framhjá þessum efnahagslegu staðreyndum og telja svigrúm til launahækkana sé hið minnsta svipað og undanfarin ár – tímabil fordæmalauss uppgangs í íslenskri hagsögu. Það er óumflýjanlegt að launahækkanir langt út fyrir hinn efnahagslega veruleika leiða til þess að fyrirtæki bregðast við með uppsögnum og verðlagshækkunum.

Skylda Seðlabankans er lögum samkvæmt að verja verðstöðugleika með þeim stjórntækjum sem hann hefur yfir að ráða. Þegar samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar og annarra útflutningsgreina versnar samfara ósamkeppnishæfum launakostnaði ætti krónan, að öðru óbreyttu, að veikjast sem ógnar á ný verðbólgumarkmiðinu. Þá kemur 752.202.000.000 króna gjaldeyrisforði að góðum notum.

Seðlabankinn er í fyrsta skipti á leið inn í niðursveiflu með rúman gjaldeyrisvarasjóð. Það verður því freistandi fyrir bankann að nýta forðann til að sporna gegn gengisveikingu sem ógnar verðbólgumarkmiðinu.

Skilaboð Seðlabankans hafa verið skýr frá upphafi; ef verðstöðugleika er ógnað þá hefur bankinn bæði vilja og tæki til að bregðast við og fórnarkostnaðurinn verður aukið atvinnuleysi. Nú eru verkföll skollin á, tjónið verður meira og svigrúm til launahækkana minna dag frá degi. Ef gengið verður að ýtrustu kröfum þá er sársaukafull aðlögun framundan . Það er ekkert til að hlakka til.