*

mánudagur, 25. mars 2019
Andrés Magnússon
10. mars 2018 13:47

Beitur

Það getur varla verið mjög gefandi að hafa viðurværi af því að skrifa og birta smellubeitur í dulargervi frétta.

Nassim Nicholas Taleb.
Aðsend mynd

Hér var í liðinni viku fjallað um auglýsingavaðal undir yfirvarpi fjölmiðlunar, sem grefur undan trúverð- ugleika fjölmiðla. Og ekki að- eins þeirra miðla, sem ástunda birtingu þess háttar skrums, heldur skaðast allir miðlar af því. Ef einum miðli er ekki treystandi til þess að segja allt af létta, af sanngirni og heiðarleika gagnvart almenningi, er þá óhætt að treysta hinum næsta? Eða öllum hinum?

Annað skylt fyrirbæri eru svokallaðar smellubeitur (e. clickbait), þar sem fyrirsagnir vefmiðla eru vísvitandi hafðar naumar á staðreyndir, jafnvel villandi, en nægilega lokkandi til þess að margir smellir á hana. Af því að vefmiðlarnir rukka fyrir auglýsingar skv. mældum smellum og innlitum á vefsíður.

Smellubeitur hafa svo sem sést hér á landi í nokkurn tíma, Pressan var dugleg við að beita þannig, en nú sýnist manni að DV sé að taka afgerandi forystu í þeim efnum, en megnið eru skrýtnar og ófréttnæmar fréttir:

Faðir vekur reiði fyrir að refsa syni sínum og birta myndband af því: Gekk hann of langt? Dæmi hver fyrir sig.

Áströlsk kona gekk fram á dularfulla flösku í sandinum: Síðar kom dálítið merkilegt í ljós

Sonur McGregor gaf ömmu sinni rándýra afmælisgjöf

Hann hélt að hann væri bara með blöðru á fætinum – Missti fótinn

Selur vöðvatröllum brjóstamjólkina: Nýbökuð móðir mjólkar og mjólkar og græðir í leiðinni

Myndband: Þetta einfalda trikk getur hjálpað þér að sofna á nokkrum mínútum

Flestum af þessum „fréttum“ eru saklaus afþreying, þó vissulega megi í einhverjum tilvikum efast um sannleiksgildið og að í öðrum sé nánast verið að höfða til gægjuhneigðar. Aðrar gera hins vegar út á einhverjar allt aðrar og verri kenndir:

Sýknaður af ákæru um heimilisofbeldi því hann kemur úr góðri fjölskyldu — Múslimar í dómnum réðu niðurstöðunni

Ef það er á þessum slóðum sem DV vill halda sig, þá er það náttúrlega bara þannig. Ritstjórn og eigendur verða að gera það upp við sig. Og víst er um það, að það má hafa einhverjar tekjur af því, þó erfitt sé að finna dæmi um slíka vefmiðla, sem hafa notið sérstakrar fjárhagslegrar velgengni.

En það getur varla verið mjög gefandi að hafa viðurværi af því að skrifa og birta þessa þvælu í dulargervi frétta. Og sumar „fréttanna“ eru raunar þannig að það vill varla hvaða auglýsandi sem er birtast þar á síðunni.

                                   ***

Sem fyrr segir skipta vinnubrögð fjölmiðla þá sjálfa mestu máli, en þau hafa einnig áhrif á aðra miðla óbeint. Og stundum beint.

Nassim Nicholas Taleb er lesendum Viðskiptablaðsins og sumum öðrum Íslendingum að góðu kunnur, en hann skrifaði bókina Svarta svaninn (e. The Black Swan) um sjaldgæfa og ófyrirséða atburði, sem samt sem áður geta vel hent og gera það öðru hverju, flestum að óvörum. Hún kom út árið 2007, mjög tímabær fyrir fjármálakreppuna, sem gerði marga hissa um þær mundir.

Nýlega kom út bókin Skin in the Game eftir Taleb, sem hlotið hefur ágætar viðtökur. Um hana hafa birst nokkrir ritdómar í blöðum í Bretlandi, þar sem hún kom út fyrst, en Taleb er ekki sáttur við þá. Ekki af hinum venjulegu ástæðum hörundsárra höfunda, heldur vegna þess að hann rak augun í misskilning eða jafnvel rangfærslur í dómunum. Nú er það svo að Taleb hefur það að sérsviði að leiðrétta slíkt og (hann kallar sjálfan sig bullbana), þannig að hann lét það ekki liggja, heldur skrifaði bloggfærslu þar sem hann rak tiltekin atriði ofan í ritdómarana, sem hann nafngreindi að sjálfsögðu og gerði fremur lítið úr.

Öllu sem æmti úr þeirra átt svaraði hann svo fullum hálsi á Twitter, en segja má að hann hafi lokið máli sínu með því að segja að hann fengi á hverjum degi staðfestingar á því, að eina fólkið sem ekki fyrirliti blaðamenn væru aðrir blaðamenn og (sumar) mæður þeirra!

Varla kemur á óvart að eftir þetta virðast bandarískir blaðamenn fremur feimnir við að skrifa ritdóma um bókina, sem er nýkomin út þar í landi. Þar hefur enginn ritdómur birst enn.

                                   ***

Það er ástæða til þess að vekja athygli á árlegri sýningu Blaðaljósmyndarafélags Íslands, Myndir ársins 2017, sem stendur í Hörpu þessa dagana. Þar er brot af því besta, sem íslenskir blaðaljósmyndarar skráðu á liðnu ári, og í senn frábær samtíðarspegill og dregur vel fram snertiflöt listar og blaðamennsku. Margt á heimsmælikvarða.

Sýningin var opnuð í Esju, austurhluta Hörpu, en henni lýkur á laugardag um aðra helgi. Við opnunina voru að venju veitt verð- laun fyrir bestu ljósmynd ársins, auk þess sem verðlaun voru veitt í sjö flokkum ljósmynda.

Mynd ársins 2017 tók Stefán Karlsson, ljósmyndari Fréttablaðsins, en það er einkar áhrifamikil mynd af ungri konu í stól húðflúrara, en hún og fleiri konur sem allar höfðu orðið fyrir kynferðisofbeldi sama manns, fengu sér sama húðflúrið til samstöðu og eflingar. Myndin er að mörgu leyti táknræn fyrir árið 2017, þar sem málefni þolenda kynferðislegs ofbeldis og kynferðislegrar eða kynbundinnar áreitni voru mjög í brennidepli.

Önnur verðlaun hlutu Eyþór Árnason, sem átti bestu mynd í fréttaflokki, Heiða Helgadóttir sem átti bæði myndröð ársins og portrett ársins, Kristinn Magnússon sem átti bestu íþróttamynd ársins, Hörður Sveinsson sem tók bestu umhverfismynd ársins, Heiðdís G. Gunnarsdóttir sem átti bestu mynd í flokki daglegs lífs og Aldís Pálsdóttir sem tók tímaritamynd ársins 2017.

Sem fyrr segir stendur sýningin stutt yfir og því um að gera að leggja leið sína í Hörpu áður en langt um líður.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.